150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágæta yfirferð á sjónarmiðum hans gagnvart frumvarpinu. Við höfum talsvert rætt um skilyrði fyrir því að fyrirtæki hljóti þessa aðstoð og að til þess að það gerist þurfi fyrirtæki að hafa orðið fyrir 75% tekjufalli á ákveðnu skilgreindu tímabili. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. þingmaður geti hugsað sér dæmi um fyrirtæki sem hafi orðið fyrir 75% tekjufalli en þurfi hins vegar ekki stuðning við að greiða uppsagnarfrest, kannski vegna þess að það er búið að nýta sér hlutabótaúrræði stjórnvalda og vegna þess að það á nægjanlegt eigið fé til að takast á við tímabundinn samdrátt í rekstri, þótt hann sé allt að 75%, í eitt af þeim fjóru skilgreindu tímabilum sem hér eru sett fram.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé eitthvað í þessu frumvarpi sem setur því skorður að fyrirtæki sem hafi næga sjóði til þess að reka starfsemi sína áfram án þess að reka starfsfólk eða fyrirtæki sem hafi næga sjóði til að greiða uppsagnarfrest ákveði það að segja upp starfsfólki sínu, geti nýtt sér þessa leið. Ég tek það fram að þau fyrirtæki mega vel hafa uppfyllt það skilyrði að hafa upplifað 75% tekjusamdrátt á einu af þessum fjórum tímabilum. En getur hv. þingmaður séð fyrir sér að eitthvað sé um fyrirtæki hér sem hafi eftir sem áður efni á því að borga uppsagnarfrest eða bara að halda starfsfólkinu áfram í vinnu hjá sér?