150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Skilyrðin um 75% tekjufall komu ekki til af engu. Það þýðir væntanlega líka að það er 75% fall í verkefnum sem viðkomandi fyrirtæki kunna að hafa haft. Það er ábyggilega teoretískt hægt að setja upp dæmi um fyrirtæki sem hafa orðið fyrir 75% tekjufalli tímabundið en eiga ótæmda sjóði. En þau hafa þá væntanlega ekki verkefni fyrir þessa starfsmenn. Nú er það væntanlega undir stjórnendum viðkomandi fyrirtækis komið hvort þeir velja að vera með fólk í vinnu sem þeir hafa ekki verkefni fyrir eða hvort þeir segja því upp. Ég held hins vegar að þeir launagreiðendur og þeir atvinnurekendur sem hafa verkefni muni halda starfsfólkinu sínu í vinnu enda er vinna þessara sömu starfsmanna væntanlega tekjuskapandi fyrir fyrirtækið. En auðvitað verður það að vera mat fyrirtækisins á hverjum tíma hvort það velur að ganga svo á eigið fé í samdráttarskeiði eins og þessu að það geti skert möguleika þess til að ná sér aftur á strik þegar aðstæður batna. Ég geri ráð fyrir að það verði alltaf mat hvers fyrirtækis. Fyrir mitt leyti myndi ég halda að það væri áreiðanlega fræðilegur möguleiki að þetta gerist en ég hef ekki trú á því að fyrirtæki velji það almennt að segja upp starfsfólki sem þau geta og væntanlega vilja hafa áfram í vinnu.