150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum ekki sammála um hvað sé skynsamlegt. Mér finnst alltaf skynsamlegt að horfa þannig á málin að menn þiggi eftir þörfum og greiði eftir getu. Það er hugmyndin á bak við tillögu Samfylkingarinnar. En Samfylkingin er með aðra tillögu. Hún er um að fyrirtækin, og ríkisstjórnin og stjórnvöld um leið, setji loftslagsmálin á dagskrá og að eitt af skilyrðunum fyrir stuðningi sé að búið sé að færa loftslagsbókhald fyrir árið 2019 og gera síðan fimm ára áætlun um hvernig minnka á losun. Ekki er verið að tala um að losun þurfi að vera einhver ákveðin prósenta, þetta er ekki íþyngjandi. Þetta eru í rauninni bara skilaboð frá stjórnvöldum til fyrirtækja um að við erum ekki búin að gleyma hamfarahlýnun og við þurfum að taka á henni saman líkt og við erum að taka á faraldrinum saman.

Hvað vill hv. þingmaður segja um þessa tillögu? Getur hann kannski hugsað sér að styðja hana?