150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrr í dag spurði ég hv. þm. Óla Björn Kárason út í skyldu launafólks til að vinna út uppsagnarfrest og ég ætla að spyrja hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson að því sama. Það er dálítið skemmtilegt af því að allt í einu kristallast hvað við upplifum tíma ólíkt. Hv. þm. Óli Björn Kárason sagði að þetta hefði komið, með leyfi forseta, „lítið sem ekkert til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd nema, held ég, bara í örfáar mínútur“. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson segir hins vegar, með leyfi forseta: „Þetta var nokkuð rætt á fundum nefndarinnar.“ Ég verð að segja að mér finnst síðara tímaskynið betra. Þetta er atriði sem þurfti að ræða því að það skiptir máli.

Þingmaðurinn sagði í ræðu sinni að ekki hefði verið sterkur vilji hjá samtökum launafólks og að einhver skilyrðing myndi ganga á réttindi launafólks. Ég held að það sé bara útfærsluatriði. Mig langar að velta því upp hvort ekki sé hægt að nýta þetta tækifæri til þess að styrkja hreinlega réttindi launafólks tímabundið í kringum þetta sérstaka úrræði, t.d. þannig að ef launamanni er sagt upp störfum og atvinnurekandi þiggur styrk til að greiða laun á uppsagnarfresti hafi hann frelsi til að velja einhliða hvort hann vinni uppsagnarfrestinn eða ekki, frekar en að um það þurfi að nást samkomulag milli launamanns og atvinnurekanda. Þetta myndi ekki ganga á réttindi launafólks heldur þvert á móti.

Hvað varðar að viljinn hafi ekki verið sterkur er það (Forseti hringir.) misjafnt eftir því hvaða umsögn maður les. Bandalag háskólamanna segir t.d. að ekki geti talist eðlilegt að fyrirtæki geti verið með starfsfólk í 100% starfshlutfalli og nýtt starfskrafta að fullu en einungis borgað (Forseti hringir.) um 15% af launakostnaði. Er þingmaðurinn sammála þessu?