150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég hef hlustað á umræður um þetta frumvarp af athygli og þar hefur margt athyglisvert komið fram. Menn hafa fært rök fyrir máli sínu og sýnist sitt hverjum. Þannig er mál með vexti að sá sem hér stendur er einn af þeim sem standa að nefndarálitinu og þeim breytingartillögum sem því fylgja. Ég skrifa reyndar undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann er stuttur og ég ætla að lesa hann upp, með leyfi forseta:

„Ég tek undir þær breytingartillögur sem meiri hlutinn gerir eins langt og þær ná. Lagfæringar meiri hlutans eru tvímælalaust til bóta. Fyrirvari minn varðar einkum þann kafla álitsins sem fjallar um aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins. Þar er fjallað um atriði sem eru alls óskyld frumvarpinu. Hann verður því að vera á ábyrgð stjórnarþingmanna.“

Við í Viðreisn höfum sagt og segjum áfram: Við viljum styðja viðleitni stjórnvalda og stjórnarinnar til þess að takast á við þann vanda sem við eigum svo sannarlega við að etja. Auðvitað hefur stjórnarmeirihlutinn tögl og hagldir í þessu, eðli málsins samkvæmt, og hefur haldið þannig á málum að hann hefur verið mjög tregur til að fallast á nokkrar breytingar sem lagðar eru fram af minni hlutanum. Hins vegar vil ég segja að umræður í þeirri ágætu nefnd sem um þetta mál fjallar, hv. efnahags- og viðskiptanefnd, hafa verið mjög góðar. Tekist hefur verið á og þar hafa verið rædd mál. Ég fullyrði að frumvarpið hefur tekið jákvæðum breytingum vegna þeirrar umræðu og ég held að stjórnarandstaðan hafi sett sitt mark á þær breytingar.

Það þýðir ekki að allt sé fullkomið í frumvarpinu þó að ég hafi ákveðið að vera á nefndarálitinu, með þessum fyrirvara. Ég ætla hins vegar ekki að fara að rekja það sem þar er. Auðvitað er alltaf hægt að fara ýmsar leiðir og það er erfitt að vita hver er endilega sú rétta. Hér er búið að ákveða að fara tiltekna leið og þá reynir maður að leggja sitt af mörkum til að bæta hana.

Félagar mínir í stjórnarandstöðunni hafa lagt fram sitt nefndarálitið hvor. Annars vegar hafa Píratar lagt fram áhugavert nefndarálit þar sem þeir fara víða og segja að þetta sé nú kannski ekki skynsamleg leið og það má vel vera. Hins vegar gera þeir ekki neinar sérstakar tillögur um breytingar á frumvarpinu, e.t.v. er mat þeirra að það taki því ekki. Hins vegar hefur hv. þm. Oddný Harðardóttir lagt fram breytingartillögur með nefndaráliti sínu. Þar eru ýmsar tillögur sem eru allrar athygli verðar. Sumar eru kunnuglegar úr umræðunni og sem hv. þingmaður hefur talað fyrir. Ég hef ekki endilega fulla sannfæringu fyrir því að allt sem þar er lagt til sé til raunverulegs gagns eða bóta. Hins vegar eru þar innan um hlutir sem ég áskil mér fullan rétt til að skoða betur og taka afstöðu til þegar að atkvæðagreiðslu kemur um málið.

En í þessari umræðu allri almennt talað held ég að það sé mjög mikilvægt að við öll höfum í huga að því sem verið er að gera, m.a. með þessu frumvarpi, er ætlað að koma til aðstoðar fyrirtækjum og launafólki. Hægt er að fullyrða að það er neyðarástand hjá mörgum fyrirtækjum og þar af leiðandi mörgum heimilum. Grípa þarf til ráðstafana sem reyna að koma til móts við þetta. Þess vegna kann ég t.d. ekki mjög vel við þegar menn tala um að í frumvarpinu sé einhver sérstakur hvati til að segja fólki upp. Við verðum að horfa til þess að þau fyrirtæki sem í hlut eiga hafa orðið fyrir svo verulegum skakkaföllum að það má nánast líkja því við rekstrarstöðvun. 75% tekjufall er verulegt áfall. Maður getur sagt sem svo að fyrirtæki sem lendir í slíkri stöðu eigi engan annan kost en að segja upp fólki, reyna að standa undir því. Það er ljóst að flest þeirra munu alls ekki getað staðið undir því. Hver er þá hinn kosturinn? Það er að fyrirtækið fari í gjaldþrot og kostnaðurinn lendi á endanum á ríkissjóði.

Mér finnst því að við þurfum að gæta þess í allri þessari umræðu af hverju við erum að þessu og hvert er tilefni þess að við erum að gera þessa hluti. Við megum ekki gleyma því. Auðvitað eigum við að gera ríkari kröfur og við gerum það. Við eigum að hafa strangt eftirlit með því að þeim skilyrðum sé fylgt og við eigum líka að búa þannig um hnúta, og það er m.a. gert í þessu frumvarpi og er ein af þeim breytingum sem gerð var, að upplýst verði að fullu hverjir nýta sér úrræðið og hvaða upphæðir eru þar í spilunum.

Ég tel að það að ganga of langt í skilyrðingu aðstoðarinnar geti orðið til þess að aðstoðin komi ekki að tilætluðu gagni og tjónið verði meira en ástæða er til. Ég veit að það er vel meint þegar fólk vill setja ströng skilyrði um það hvers eðlis þessi fyrirtæki eru, hvort þau hafi skilað hagnaði á einhverju tímabili, hvers eðlis eigendur þeirra eru og hvernig þeir hafa hagað sér, en við megum ekki missa sjónar á meginmarkmiðinu með þessu öllu.

Það er á þeim grundvelli, sem ég lýsti áðan, að við viljum leggja gott til, við viljum reyna að bæta og laga það sem stjórnin er að reyna að gera, en við vitum líka að það er takmarkað sem við getum raunverulega umbylt af því sem stjórnin ætlar sér. Það er hinn bitri veruleiki sem við í stjórnarandstöðunni búum við. En við erum ekki spör á gagnrýni og ábendingar og munum að sjálfsögðu halda því áfram á fullu. Sá sem hér stendur hefur gagnrýnt margar af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og yfirleitt ekki talað neina tæpitungu í þeim efnum og ég mun halda því áfram. Ég styð málið eins og það er orðið. Það hefur batnað í meðförum nefndarinnar þannig að ég mun styðja það að sjálfsögðu þar sem ég hef skrifað undir, með þeim fyrirvara sem er að finna í nefndarálitinu.