150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn í umræðuna og grípa niður í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem var rétt í þessu að berast þingmönnum, þar sem hún gerði frumkvæðisathugun á hlutastarfaleiðinni. Þar kemur margt áhugavert í ljós. Í upphafi skýrslunnar er raktar þær tölur sem um ræðir. Þar segir að leiðin hafi verið lögfest 20. mars 2020 og að þann 15. maí hafi 6.436 vinnuveitendur og um 37.000 launamenn þegar nýtt sér hlutastarfaleiðina. Það er mikill fjöldi sem nýtt hefur sér þetta úrræði og að sama skapi hefur það kostað ríkissjóð mikið fé. Gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir að útgreiðslur vegna hlutabóta geti orðið allt að 31 milljarður kr. árið 2020. Síðan kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafi 85% þeirra vinnuveitenda sem nýttu hlutastarfaleiðina fram til 15. maí gert samkomulag við einn til sex starfsmenn um hlutastarf. Þá hafi 31 fyrirtæki samið við fleiri en 100 starfsmenn. Í 89% þeirra tilvika þar sem vinnuveitendur nýttu hlutastarfaleiðina voru heildargreiðslur til launamanna lægri en 3 millj. kr. Eitt fyrirtækið sker sig þó algerlega úr hvað varðar fjölda starfsmanna sem eru á hlutastarfaleiðinni og fjárhæð greiðslna, Icelandair hf., en í mars og apríl greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður 926 millj. kr. í hlutabætur vegna 2.493 starfsmanna fyrirtækisins. Heildargreiðslur vegna hlutabóta til starfsmanna móðurfélags flugfélagsins, Icelandair Group hf., voru 1.116 milljarðar kr. vegna 3.318 starfsmanna. Þetta eru gríðarlega miklar upphæðir og sjálfsagt að vel sé fylgst með því með hvaða hætti þetta er gert.

Þá kem ég að því sem Ríkisendurskoðun leggur mikla áherslu á í skýrslu sinni, að mikið og virkt eftirlit verði að vera með þessari leið.

Ég nefndi það í andsvari fyrr í umræðunni að í Svíþjóð eru u.þ.b. 100 sérfræðingar á skattasviði sem starfa eingöngu við eftirlit með hlutabótaleiðinni þar. Það er því alveg ljóst að hér þurfum við að taka okkur verulega á. Það er mjög einkennilegt að leggja í þessa vegferð með svo miklar fjárhæðir í spilunum að ekki skuli hafa verið neitt ráðrúm til þess að fara í virkt eftirlit jafnóðum og úrræðið varð virkt.

Það bendir til þess, eins og Ríkisendurskoðun kemur inn á, að hlutastarfaleiðin hafi nýst til að tryggja framfærslu launamanna og styðja við vinnuveitendur vegna samdráttar og til að viðhalda ráðningarsambandi. Það er að sjálfsögðu jákvætt og það sem lagt var upp með í upphafi.

Í skýrslunni segir jafnframt að komið hafið í ljós að þrátt fyrir áherslur stjórnvalda um að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur, virðist hafa verið nokkurt frjálsræði við túlkun laganna. Í hópi þeirra aðila sem nýtt hafa sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag, en ekki verður séð af lögunum eða lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlun löggjafans. Nokkur fyrirtæki hafa tilkynnt að þau hafi hætt við að nýta þessa leið eða boðið endurgreiðslu, eins og við þekkjum. Mér skilst að það séu rúmlega 50 fyrirtæki. En þó er líka athyglisvert sem segir í skýrslunni, að sveitarfélög og opinberir aðilar nýti sér þetta úrræði. Komið hefur fram, m.a. í fjölmiðlum, að þrátt fyrir að lögskýringargögn og það sem lagt er til grundvallar af hálfu löggjafans hafi úrræðið ekki verið ætlað fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra. Það er mjög athyglisvert sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina sem við ræðum og stendur til að framlengja í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Ríkisendurskoðun bendir á að fordæmalausar efnahagsaðstæður hafi kallað á skjót viðbrögð stjórnvalda til að styðja við vinnuveitendur og útvíkka rétt launamanna til atvinnuleysisbóta. Undir það skal að sjálfsögðu tekið. En þrátt fyrir það er brýnt að haft sé eftirlit með nýtingu ríkisfjár, eins og Ríkisendurskoðun kemst að orði, og að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs og að útgreiðslur úr honum taki mið af vilja löggjafans, sem greinilega hafa verið vankantar á. Varðandi umræðu um umfang og kostnað í frumvarpi um framlengingu hlutastarfaleiðarinnar er bent á að ef ekki hefði komið til þessa úrræðis hefði mögulega þurft að mæta sama kostnaði annars staðar í rekstri hins opinbera. Þar má vísa til framfærslukostnaðar sveitarfélaganna og einnig úrræða varðandi greiðslu launa á uppsagnarfresti.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að óvissa ríki um þróun rekstrarskilyrða og efnahag sjö einstakra fyrirtækja og alls óvíst hvort og hversu mikill kostnaður hefði fallið á ríkissjóð ef ekki hefði komið til hlutastarfaleiðarinnar. Það er gott og rétt að halda því til haga. Sérstaklega á það við í tilfellum þar sem fyrirtæki með öflugan rekstur og sterkan efnahag nýttu sér úrræðið. Ljóst að fyrirtæki hafa nýtt sér leiðina þrátt fyrir að eiga ekki í bráðum rekstrar- og greiðsluvanda. Ríkisendurskoðun telur að fullt tilefni hefði verið fyrir stjórnvöld að endurskoða framkvæmd hlutastarfaleiðarinnar og bregðast við, enda væri þannig leitast við að úrræðið væri eingöngu nýtt af þeim aðilum sem því er ætlað að aðstoða.

Það er margt mjög athyglisvert í þessari skýrslu, sem er alveg nauðsynlegt að þingmenn lesi og fari vel yfir. Nefndin hefur að vísu skilað þessu af sér hér og er nauðsynlegt að farið verði vandlega yfir þetta. Ég vænti þess að svo verði, m.a. í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og svo verður skýrslan kynnt í fjárlaganefnd. En það er nauðsynlegt að koma inn á hana í umræðunni.

Niðurstaðan er að eftirlit Vinnumálastofnunar sé mjög mikilvægt og allt frá því að Vinnumálastofnun opnaði fyrir umsóknir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli var áhersla stofnunarinnar á að tryggja framkvæmd úrræðis umfram eftirlit. Stofnunin hefur boðað eftirlit, að það verði aukið eftir því sem álagið á starfsmönnum þar minnkar. En ég set spurningarmerki við hvort ekki hefði átt að mæta þessu mikla álagi hjá Vinnumálastofnun einfaldlega með því að fjölga starfsmönnum tímabundið, eingöngu til þess að sinna eftirliti, vegna þess að hér eru gríðarlega miklir fjármunir í spilunum og þetta er skattfé almennings sem verið er að nýta í þessum efnum. Önnur lönd eru með virkt eftirlit og er spurning hvort þau áform Vinnumálastofnunar um að fara í eftirlit á síðari stigum þegar um hægist séu ekki svolítið seint til komin.

Herra forseti. Niðurstaða í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem gerði frumkvæðisathugun á hlutabótaleiðinni, sem er mjög jákvætt, er sú að tryggja þurfi virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað og kanna hvort vinnuveitendur uppfylli tiltekin skilyrði um rekstur fjárhag og fjárhagsskuldbindingar.

Það er rétt að halda því til haga að skýrslan var bara að berast þingmönnum í dag og er mikilvægt innlegg inn í umræðuna sem hér er.