150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna. Fyrst aðeins um frumvarpið almennt sem hefur margt jákvætt að geyma og felur í sér löngu tímabæra endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það hefur lengi legið fyrir að þá umgjörð þurfti að endurskoða. Það er einfaldlega þannig að stjórnvöld sem vilja standa vörð um háskólaumhverfið, stjórnvöld sem vilja veg háskólamenntunar sem mestan, stjórnvöld sem vilja veðja á háskólamenntun og rannsóknir, þurfa um leið að búa þannig að námsmönnum að þeir fái stuðning og umgjörð til að sinna námi sínu. Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn og námslánakerfi er grundvallarforsenda þess að tryggja jafnrétti til náms og námslánakerfið er jafnframt leið stjórnvalda til að sýna í verki þann stuðning sinn við háskólamenntun. Námslánakerfi er þannig svar stjórnvalda við því hvernig stjórnvöld vilja tryggja jafnrétti til náms.

Viðreisn tekur heils hugar undir þau markmið frumvarpsins að tryggja háskólastúdentum jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána en einnig í formi námsstyrkja. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að benda á að það sem í frumvarpinu kallast námsstyrkur, og það sem þetta frumvarp boðar, er kannski fyrst og fremst í formi þess hvernig námslánið endurgreiðist. Það er eiginlega ekki þannig að hægt sé að tala um að frumvarpið boði eiginlega námsstyrki eins og við þekkjum þá að norrænni fyrirmynd, námsstyrki í þágu stúdenta. Hér er miklu frekar um að ræða fyrirkomulag um endurgreiðslur.

Það er í því ljósi sem heiti frumvarpsins er kannski ekki nægilega lýsandi um inntak eða efni þess. Menntasjóður, það orð gefur til kynna að málið sé annað og meira en endurskoðun á lánafyrirkomulagi. Vitaskuld verður sjóðurinn enn þá fyrst og fremst lánastofnun og lánasjóður og frá því markmiði á auðvitað ekki að hverfa. En Menntasjóður finnst mér hafa á sér aðeins annað yfirbragð.

Ekki er hægt að líta alveg fram hjá því á hvaða tíma frumvarpið er hér til umræðu og við hvaða aðstæður. Þó að frumvarpið eigi sér langan meðgöngutíma er það engu að síður hér til meðferðar þegar við erum í þeirri stöðu að við stöndum frammi fyrir efnahagslegu áfalli. Við erum í samtali hér um efnahagslegar aðgerðir til að bregðast við þeim aðstæðum og við ættum þess vegna að vera í samtali um framtíðarsýn. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi hefði mátt og átt að horfa til framtíðar og senda þau pólitísku skilaboð að stjórnvöld ætli nú markvisst að fjárfesta í háskólamenntun, fjárfesta í rannsóknum og að fjárfesta í nýsköpun. Mikilvægur liður er að búa vel að háskólastúdentum og tryggja þeim þau kjör að unnt sé að sinna háskólanámi án þess að þurfa samhliða að tryggja sér framfærslu með vinnu. Við þekkjum það öll að það er og hefur verið veruleiki íslenskra háskólastúdenta um langa hríð. Þegar sú umgjörð liggur ljós fyrir og sú afstaða stjórnvalda liggur ljós fyrir þá löðum við fólk áfram til náms og jafnvel kannski í auknum mæli. Í því sambandi má hafa í huga hverjar aðstæður eru á atvinnumarkaði og þetta gæti verið eitt af þeim verkfærum sem við beitum í þeirri stöðu að gera háskólanám aðgengilegt fyrir einhverja þeirra sem nú standa uppi án starfs. En með því að bjóða upp á námsstyrki samhliða öflugu lánakerfi tryggjum við líka að stúdentar geti lokið námi á viðunandi tíma og að þeir búi við þær aðstæður að geta sinnt náminu eingöngu en ekki með vinnu eða vinnu meðfram námi. Þannig tryggjum við samfellu í námi, þannig tryggjum við að námsframvindu sé hraðað og blasir við að það er bæði námsmönnum og samfélaginu öllu til góða.

Það kemur fram og hefur þýðingu í þessu sambandi, sem segir í greinargerð, að íslenskir námsmenn hafi almennt meiri fjárhagslegar áhyggjur en aðrir evrópskir námsmenn. Einhverra hluta vegna er staðan sú að háskólanemar á Íslandi eru eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Það er líka þekkt staða að íslenskir námsmenn eru lengi í námi og ég held að það sé ekkert mjög glannaleg ályktun að tengja það við þann veruleika að við vinnum flest öll samhliða háskólanámi. Vitaskuld hefur það áhrif á námshraða og framgang. Þess vegna er mikilvægt að ætla að svara því afdráttarlaust að námslán, lán í þágu stúdenta, dugi þeim til framfærslu.

Mér finnst frumvarpið því miður ekki afdráttarlaust um það og ég staldra dálítið við það atriði. Hér eru vissulega gefin ákveðin fyrirheit og það markmið er ljóst í frumvarpinu, sem er gott, en reynsla okkar af kjörum námslána segir okkur að hér þarf þetta að vera skýrt og hér þarf að ramma inn þau skilaboð með einhverjum hætti og hér þarf að gera betur. Mér finnst skorta ákveðinn fyrirsjáanleika í þeim efnum og ég sakna þess að sjá ekki sérstaklega fjallað um þetta atriði sem er kannski þungamiðjan í stúdentapólitíkinni hvað varðar kjör á meðan á námi stendur. Reynslan þar talar einfaldlega sínu máli. Reynslan er sú að framfærslan hefur ekki dugað til, hún hefur ekki búið stúdentum þær aðstæður að þeir geti lifað af henni.

Í umsögnum við frumvarpið hefur það stef komið fram, og það er stef sem ég tek undir, að grunnframfærslan hafi fram að þessu verið of lág til að námsmenn geti framfleytt sér án vinnu, án þess að vera samhliða í vinnu. Það gefur, eins og ég nefndi hér áðan, augaleið að þegar stúdentar þurfa að vinna samhliða námi er það til þess fallið að draga úr námshraða og námsárangri. Það kostar ekki bara stúdentana heldur okkur sem samfélag. Þá er það kannski orðið dálítið tvíbent með kostnaðinn eða sparnaðinn af því að hafa framfærsluna með þessum hætti því að auðvitað kostar það okkur sem samfélag að háskólastúdentar séu lengi í námi. Það er líka þannig að þegar nám dregst á langinn þá eykur það líkurnar á brottfalli og allar þær einingar sem námsmenn hafa skilað standi úti vegna þess að náminu lýkur ekki. Það er okkur öllum í hag að námið sé stundað í samfellu og á eðlilegum hraða og að námsmenn ljúki gráðum sínum.

Vissulega er í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins kveðið á um að miða skuli við að framfærslulán nægi námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur, að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu. Þetta er mjög gott, það er gott að þetta sé skýrt orðað þarna. En það vantar upp á að þetta markmið sé tryggt, að það sé í raungert með einhverjum hætti. Frumvarpið boðar ekki nákvæmlega hvað felst í þessu og ég sakna þess. Felst í þessu, og það er óskandi, sú afstaða ríkisstjórnarinnar að hér eigi að gera umtalsvert betur í kjörum stúdenta en verið hefur? Þá vísa ég aftur til reynslunnar, það er hún sem vekur upp þær áhyggjur að þarna að baki sé kannski í reynd verið að boða minni breytingar en frumvarpið ber með sér. Reynslan sem við höfum byggist á núgildandi lögum og þau segja það sama. Þar er þetta sama markmið rammað inn, að framfærslulán eigi að nægja námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði. En sú hefur engu að síður ekki orðið reyndin. Þetta markmið laganna hefur ekki náðst að fullu fram. Stúdentar hafa lengi búið við kjör sem eru ekki í takt við raunveruleika framfærslukostnaðar.

Þetta atriði er í mínum huga sennilega veigamesti þáttur frumvarpsins og eins og ég segi er einfaldlega ekki nægilega skýrt og nægilega tryggt að frumvarpið nái markmiðum sínum. Stór atriði sem snúa að framfærslu námsmanna er ekki að finna í frumvarpinu en verða útfærð í úthlutunarreglum eins og verið hefur, og það er eðlilegt. En aðstæðurnar nú eru kjörnar og kalla kannski á að verulega sé aukið í framlög sem eiga að fara í að tryggja framfærslu stúdenta. Þetta finnst mér aftur koma inn á það, sem ég nefndi hér áðan, að ekki sé alveg hægt að kippa því úr samhengi á hvaða tímapunkti við erum að ræða heildarendurskoðun á þessum lögum. Við þær aðstæður sem uppi eru, í þeirri efnahagslegu lægð sem við erum í, er góður tími, er rétti tíminn, til að taka einfaldlega afgerandi pólitíska afstöðu um það að við stöndum með háskólamenntun og stöndum með háskólastúdentum. Það er ástæða þess að hér er lagt til að fara í að auka stuðning við námsmenn með beinum námsstyrkjum. Við sjáum það sem lið í viðbrögðum við því hvernig við ætlum að horfa til framtíðar eftir þessa efnahagslegu lægð.

Í frumvarpinu er mikil áhersla lögð á fyrirkomulag endurgreiðslu lána. Það er af hinu góða, og eru mörg jákvæð skref stigin þar, sem við fögnum. Framtíðarsýn Viðreisnar um háskólamenntun byggir hins vegar ekki síður á því hvernig við tryggjum jafnrétti til náms og afkomu stúdenta á meðan á námi stendur og ekki síður fara þá leið en að tryggja hvernig endurgreiðslu lánanna verður háttað þótt þar séu jákvæð skref stigin, sem við tökum undir og fögnum. En það þarf líka að tryggja afkomu þeirra stúdenta sem eru í námi núna og stúdenta sem eiga eftir að fara í háskólanám þegar fram líða stundir.

Miðað við fókusinn er margt í frumvarpinu sem lýtur með beinni hætti að endurgreiðsluþættinum en lánaþættinum. Manni virðist á köflum sem fókusinn sé sá að styrkja hagsmuni þeirra sem greiða þurfa af námslánum en geri ekki jafn mikið fyrir þá stúdenta sem eru í námi, eru enn í þeirri stöðu að vera að taka lán. Í því sambandi vísa ég til erindis sem þingmönnum barst frá Landssamtökum íslenskra stúdenta þar sem segir, með leyfi forseta:

„Engu að síður er mikilvægt að gangast við því að enn er mikil vinna fyrir höndum áður en hlutur stúdenta er réttur við á fullnægjandi hátt og að fyrrnefnd markmið náist.“ — Landssamtökin telja þetta einungis fyrsta skrefið í lánasjóðsmálum á Íslandi.

Stúdentaráð Háskóla Íslands sendi líka frá sér ályktun í dag þar sem bent var á að samkvæmt 2. gr. frumvarpsins um framfærslulán og skólagjaldalán verði áfram undir stjórn Menntasjóðs komið að ákvarða grunnframfærslu framfærslulána með úthlutunarreglum ár hvert. Stúdentaráð gagnrýnir það fyrirkomulag og harmar að frumvarpinu fylgi ekki frekari fyrirmæli til stjórnar um að tryggja stúdentum viðunandi framfærslu. Þau kalla sem sagt eftir skýrari fyrirheitum og eftir skýrari pólitík, vil ég leyfa mér að segja. Enda þótt ég sé þeirrar skoðunar og sammála því að ekki sé rétt að fara þá leið að setja einhverja krónutölu inn í þetta frumvarp, um hver framfærslan eigi að vera, þá eru aðrar leiðir til að tryggja að framfærslan dugi til.

Ég hef reifað helstu athugasemdir og um leið þá afstöðu að við styðjum málið. Hér eru breytingar sem eru jákvæðar. Þarna er ýmislegt gott og frumvarpið hefur jú verið lengi í smíðum og til meðferðar. En að þessu sögðu er ástæða máls míns sú að leggja til tilteknar breytingar sem liggja fyrir í breytingartillögu. Þær lúta í grundvallaratriðum að tveimur veigamiklum atriðum. Annars vegar að því sem hefur verið rauði þráðurinn í því sem ég hef verið að segja, að tryggja að grunnframfærslan dugi stúdentum til framfærslu á meðan á námi stendur. Það verði gert með þeim hætti að framfærslulán skuli að lágmarki nema neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins að viðbættum húsnæðiskostnaði og að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu. Það er sú leið sem við viljum fara til að tryggja að hið góða markmið frumvarpsins raungerist því að reynslan segir okkur að meira þarf að koma til en markmið. Þessi góðu pólitísku skilaboð sem við sjáum í frumvarpinu þarf að ramma skýrar inn, það þarf að ramma þau inn með afgerandi hætti og það er hugmyndin að baki þessari tillögu.

Hins vegar er gerð sú breytingartillaga að stúdentum bjóðist jafnframt að sækja um námsstyrk. Það er hugmynd sem er að norrænni fyrirmynd og við þekkjum þaðan. Hún byggir á því að námsmenn sem stunda nám sem telst lánshæft og skili ákveðnum árangri eða einingum geti sótt um námsstyrk til framfærslu. Tekið er fram í breytingartillögunni hver útfærslan þar er nánar tiltekið, en það er upphæð sem nemur 72.000 kr. á mánuði miðað við fulla námsframvindu. Þar er jafnframt útlistað að fjárhæð þessa styrks taki breytingum í upphafi hvers skólaárs, í réttu hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs og að fjárhæðin skuli birt í úthlutunarreglum og standa óbreytt alla mánuði þess skólaárs. Það er mat 3. minni hluta að þessar breytingartillögur feli í sér skýrari og kraftmeiri tillögu og um leið raunverulega kjarabót í þágu stúdenta á meðan á námi þeirra stendur. Það er mikilvægt að horfa til þess, þegar þessi heildarendurskoðun á lögunum er að verða að veruleika, og byggja undir þetta kerfi til framtíðar svo að það nýtist stúdentum vel, bæði á meðan á námi stendur og eftir að því lýkur og þá í formi endurgreiðslukerfisins.

Aftur vil ég vísa til þess að við núverandi aðstæður, í þessum umræðum um efnahagsaðgerðir, erum við að horfa á það hvernig við ætlum að bregðast við til skemmri tíma en hluti af því hvernig við bregðumst við til skemmri tíma er hver sýn okkar er til lengri tíma. Mér finnst ekki hægt að slíta umræðuna hér í dag um þetta mál úr sambandi við þá stöðu sem við erum í og ekki hægt annað en að hafa það í huga núna, þegar þetta mál er til umræðu, að við erum með þessum tillögum að boða að við ætlum að horfa til framtíðar um hagsmuni stúdenta og um leið háskólamenntunar í heild sinni, horfa fram á veginn og boða framsækna pólitík í menntamálum. Það er alveg skýrt í okkar huga að svar okkar í þessu máli er eitt af svörunum við því hvernig við ætlum að bregðast við til lengri tíma í menntamálum. Þessar breytingartillögur fela að mínu mati í sér skynsamlega leið og góða fjárfestingu til framtíðar sem verður okkur öllum til góðs.