150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og nefndarálit og ég er algerlega sammála þingmanninum um að það margborgar sig að vera framsækin í menntamálum. Það er fjárfesting sem kemur alltaf margfalt til baka.

Já, um víðtæka kerfisbreytingu er að ræða sem lengi hefur verið kallað eftir, eins og þingmaðurinn fór yfir í sinni ræðu. Markmið kerfisbreytinganna er m.a. að jafna stuðning við stúdenta, gera kerfið sanngjarnara og gegnsærra og minnka m.a. greiðslubyrði fólks eftir að námi lýkur. Fyrir flesta kemur þetta mun betur út en núverandi kerfi sem hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Ég held að flestir séu sammála um það líka.

Ég sé á nefndaráliti 3. minni hluta, og eins og þingmaðurinn fór mjög vel yfir í ræðu, að Viðreisn er ánægð að mestu með þær breytingar sem verið er að gera á framfærslunni og ég er ánægð að heyra það. Meiri hlutinn fjallaði líka um framfærsluna í nefndaráliti sínu og er þar á sömu slóðum, hún verður náttúrlega að duga til framfærslu. Ég bendi þingmanninum á skýringar með 2. gr., ég hef ekki tíma til að lesa hana upp en við erum báðar með þessi gögn, þar sem kemur fram hvað liggur undir. Þarna er verið að breyta í átt við það hvernig þetta er gert á hinum Norðurlöndunum. Við getum tekið það í næsta andsvari. Mig langar til að heyra vangaveltur þingmannsins um þetta, þ.e. skýringarnar með 2. gr. og það sem þar er undir.