150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ræðuna. Hún fór yfir markmiðin að baki frumvarpinu og þau skref sem stigin hafa verið sem hún segir jákvæð og það er rétt hjá henni að afstaða Viðreisnar er jákvæð til þessa frumvarps eins og það liggur fyrir í heild sinni. Það var nefnt hverjar athugasemdirnar væru við 2. gr. Við höfum auðvitað eins og aðrir þingmenn farið yfir þær og þær breytingar sem þar er verið að leggja til. Það sem eftir stóð hvað okkur varðar var hins vegar það atriði að greinin eins og hún stendur og markmið hennar er að inntaki óbreytt frá fyrri lagasetningu, um það hvert fyrirheitið er og leiðin til að ná fram því góða markmiði sem frumvarpið boðar. Því yrði náð fram með þeirri leið sem 3. minni hlutinn leggur til með þessari bindingu þannig að það væri eitthvert fyrirheit á bak við það hvað það þýðir að boða í frumvarpi að grunnframfærsla námsláns dugi stúdentum til framfærslu. Af því að þar er vísað til norrænnar framkvæmdar þá er það svo sem sama stefið og á við um hina tillöguna líka.

Ef markmiðið með spurningunni var að draga fram hvort hér sé ólík sýn þá er það niðurstaða minni hlutans að með þeirri leið sem hér er lögð til, að binda þetta með þessum hætti við neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins, sé hægt að raungera þetta markmið og tryggja stúdentum þau kjör sem frumvarpið boðar. Og svo í annan stað með því að fara þá leið að boða eiginlega og raunverulega námsstyrki.