150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Með leyfi forseta, langar mig til að lesa upp úr skýringum við 2. gr. Við þingmaðurinn erum sammála um að við erum ekki að tala um að setja einhverja krónutölu inn í frumvarpið, það væri ekki góð lausn, en í skýringu með 2. gr. stendur:

„Erfitt getur verið að sannreyna hvaða krónutala sé nægjanleg til þess að námsmenn geti framfleytt sér og stundað nám sitt. Þar sem 3. gr. gildandi laga kveður á um að námslán skuli nægja hverjum námsmanni til framfærslu þá er lagt til að bæta inn orðinu „almennur“ fyrir framan orðið „framfærslukostnaður“ til að það sé skýrt að sjóðnum beri ekki skylda til veita lán vegna einstaklingsbundinna útgjalda. Í framkvæmd hefur við útreikning framfærslugrunns verið byggt á grunnviðmiði neysluviðmiða frá félagsmálaráðuneytinu og hann uppreiknaður miðað við hækkun vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands á ári hverju. Þá er með staðaruppbót átt við viðbótarlán sem miðast við kostnað vegna nauðsynja (fæði, húsnæði o.fl.) og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað.“

Bara svo ég dragi þetta aðeins saman, þá finnst mér þetta vera mjög skýrt. Markmiðið er að fólk geti raunverulega lifað af láninu og að við útreikninga framfærslugrunns hafi verið byggt á grunnviðmiði neysluviðmiða frá félagsmálaráðuneytinu og hann uppreiknaður miðað við hækkun vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands á ári hverju. Mig langar til að fá aðeins ítarlegri skýringar svo ég nái almennilega utan um það um hvað nákvæmlega okkur greinir á. Það kom fram sú ósk í umræðunni fyrr í vikunni að taka málið aftur inn til nefndar milli umræðna og ég geri ráð fyrir því að það sé sjálfsagt og eðlilegt að gera það. En ég skil þetta ekki alveg enn þá, mér finnst við vera sammála en samt einhvern veginn ekki þar sem þingmaður sá ástæðu til að koma (Forseti hringir.) með sérstakar breytingartillögur. Ég vildi heyra aðeins betur um þetta.