150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi þá ábendingu stúdentahreyfingarinnar að ekki hafi verið hlustað á öll þeirra sjónarmið þá er það eitthvað sem við heyrðum líka þegar þau komu fyrir nefndina í nóvember, hvernig nefndarstarfinu, sem frumvarpið byggir á, var háttað. Það er nefnilega upplifun stúdenta að þeir séu til samráðs á hluta leiðarinnar en síðan, þegar til kastanna kemur, sé þeim kúplað út og einhverjir aðrir sjái um lokafrágang málsins. Þeir stúdentar sem sátu í endurskoðunarnefndinni könnuðust ekki alls kostar við allt sem kom frá ráðuneytinu og voru ekki á allt sáttir. Þannig að þegar ég heyri þingmanninn segja að ekki sé farið í einu og öllu eftir óskum stúdenta fæ ég dálítið ónotalega tilfinningu vegna þess að óskir stúdenta eru, eins og ég kom inn á í ræðu minni, ekki bara „mér finnst“ og þær plokkaðar úr eternum. Þær eru byggðar á gögnum og rökum og þær eru sanngjarnar. Námslánakerfið er líka ekki góðgerðarstarfsemi fyrir utan það að hér er framfærslan allt of lág, 185.000 kr. á mánuði eins og ég kom inn á, þá er námslánakerfið ein af undirstöðum velsældar í samfélaginu í framtíðinni. Vel menntuð þjóð mun byggja upp Ísland sem stendur betur og býr yfir aukinni velsæld í framtíðinni þannig að (Forseti hringir.) óskir stúdenta eru ekkert annað en óskir um betra Ísland.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á ávarpið hv. þingmaður.)