150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ánægjulegt að heyra að við erum allflest, held ég, sammála um ágæti þess að breyta námslánakerfinu og færa okkur yfir í annars konar form. Það er líklega sjaldan þannig að öllum verði gert til hæfis í því þó að reynt sé að koma til móts við ýmsar athugasemdir.

Ég staldraði við nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns. Hann ræddi m.a. um 19. gr. og endurgreiðslur námslána, að þær myndu hefjast ári eftir námslok í stað tveggja ára áður. Ég velti því upp hvers vegna við ættum að hafa þetta með öðrum hætti en er t.d. í kringum okkur á Norðurlöndunum því að þar hefjast endurgreiðslur, eftir því sem ég best veit, jafnvel strax eftir námslok og í lengsta falli ári síðar. Við erum í raun að færa okkur nær því. Við höfum auðvitað verið með tvö ár þannig að það er verið að stytta þennan tíma. Sannarlega eru aðstæður okkar misjafnar eftir nám og langt nám, það er alla vega, en það er auðvitað nýmæli í þessum lögum, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að hægt er að fresta afborgunum á námslánum í allt að fjögur ár, sérstaklega ef lánþegi heldur áfram í lánshæfu námi og er ekki á námslánum á sama tíma. Ég velti því bara upp með þingmanninum af hverju þetta ætti að reynast íslenskum námsmönnum erfiðara en námsmönnum annars staðar á Norðurlöndunum. (Forseti hringir.) Ég sé að tíminn er búinn, ég ætlaði að koma inn á aðra spurningu, en byrjum á þessari.