150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég horfi bara til þess að það hefur reynst vel að þurfa ekki að greiða af námslánum fyrstu tvö árin eftir nám. Ég hef persónulega reynslu af þessu sjálfur. Það kom mér mjög vel á sínum tíma þegar ég kom úr námi í Bandaríkjunum með fjölskylduna, sem var kostnaðarsamt, að þurfa ekki að greiða af námslánunum fyrr en tveimur árum síðar. Þetta hefur líka verið rökstutt í umsögnum sem ég nefndi. Það er vilji stúdenta, held ég, að þetta verði óbreytt. Hvort það hafi mikil áhrif á stöðu sjóðsins átta ég mig ekki á, ég hef ákveðnar efasemdir um það, þótt bara verði haldið í gamla kerfið.

Hv. þingmaður nefndi að á Norðurlöndunum væri þetta með þessum hætti og jafnvel innan skemmri tíma. Það kann að vera að menn hafi haft það til hliðsjónar hér, en þegar námsmenn koma heim til Íslands þá er nú, eins og við þekkjum, margt kostnaðarsamara hér á Íslandi, húsnæðismál og ýmis kostnaður sem fjölskyldan þarf að reiða af hendi þannig að það er kannski ekki alveg sambærilegt við Norðurlöndin. Það getur verið erfiðara að fara að fóta sig aftur í samfélaginu hér eftir að hafa verið í námi og þurfa að standa straum af þeim kostnaði sem því fylgir að koma heim, húsnæðismál, framfærsla og annað slíkt. Ég held að ríkt hafi ágæt sátt um þessa tveggja ára reglu og sé ekki alveg rökstuðninginn fyrir því að breyta þessu.