150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanni svarið. Ég vil meina að það sé kannski ekki ódýrara að lifa í stórborgum Norðurlandanna en hér á Íslandi þó að það sé margt annað sem geti að einhverju leyti vegið upp á móti.

Hv. þingmaður nefndi nefndina vegna lánskjaranna og annars. Nú leggur meiri hluti nefndarinnar til að sú nefnd verði ekki, heldur verði þetta sett í vaxtaþak. Svo að það sé áréttað þá var það vegna samtals við stúdenta. Sannarlega vildu þeir færa kjörin neðar og ég hefði líka gjarnan viljað gera það, ég ætla bara að segja það, en þetta er niðurstaða sem við leggjum til sem málamiðlun við það sem kom fyrir í frumvarpinu. Ég treysti því, og við í meiri hlutanum reynum að rökstyðja það, að það þurfi að vera komið í dálítið óefni í samfélaginu ef við förum svona hátt upp í vaxtastiginu og sérstaklega miðað við stöðuna hjá okkur í dag. Ég tel að það gæti margt annað verið komið í skrúfuna áður en námslánin færu í skrúfuna ef vextir rjúka upp úr öllu valdi.

Hitt sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um varðar framfærslustyrk vegna barna. Fleiri þingmenn hafa nefnt þetta og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er með breytingartillögu beinlínis um að foreldrar fái framfærslustyrk vegna barna. Mér finnst að það eigi að koma úr einhverjum öðrum kerfum af því að annars erum við komin með kerfi við hliðina á kerfinu. Námsmaður er í námslánakerfi og fær 30% niðurfellingu að því gefnu að hann ljúki námi á tilsettum tíma og hann fær styrk með börnum. Það er til þess að barnafjölskyldur standi jafnfætis þeim einstaklingum sem eru að ljúka námi, þarna er verið að nota þetta sem jöfnunartæki. Ég spyr hvort þingmaðurinn myndi ekki vilja gera það í staðinn fyrir að allir sem væru með börn fengju styrk, óháð því hvort þeir þyrftu á námslánum að halda.