150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum væntanlega við lok umræðu um nýtt fyrirkomulag í lánamálum námsmanna, frumvarp um nýjan Menntasjóð. Á margan hátt er þetta tímamótafrumvarp sem komið er í 2. umr. og um breytingu að ræða sem lengi hefur verið kallað eftir. Frumvarpið, ef við skoðum markmiðsgreinina, felur það í sér að tryggja enn betur jafnrétti til náms. Það má kannski segja að eftir sem áður séu jöfn tækifæri til náms óháð efnahag og stöðu en um er að ræða betri og réttlátari stuðning við námsmenn þar sem skil á milli lána og stuðnings í formi styrkja verða skýrari. Sjóðurinn hefur um leið skýrara hlutverk að þessu leyti þó að það hafi kannski alltaf legið fyrir að hann eigi að vera þetta jöfnunartæki, félagslegt jöfnunartæki, eins og kveðið er á um í 29. gr. frumvarpsins. Þar segir að sjóðurinn eigi að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veiti námsaðstoð í formi námsstyrkja og námslána.

Þetta er mikilvægt og í þessari fínu umræðu um málið hafa ýmsar fleygar setningar flogið um mikilvægi menntunar fyrir samfélagið. Ég ætla ekki að gera neina tilraun hér og nú til að bæta um betur þar, en breytinga er sannarlega þörf. Það er rakið ágætlega í greinargerð frumvarpsins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fór vel yfir þann þátt í framsögu sinni og í 1. umr. um málið sem var 1. nóvember á liðnu ári. Gildandi lög eru frá 1992. Ekki hefur áður liðið svo langur tími á milli breytinga á því sviði sem við ræðum hér og það er í sjálfu sér athyglisvert. Greint er ágætlega frá þessu í greinargerð með frumvarpinu. Það er merkilegt þegar horft er á mikilvægi menntunar, hvort sem horft er á velsæld eða nýsköpun eða hvað annað, að ekki hafi tekist í svo langan tíma að bregðast við breytingum sem óhjákvæmilega hljóta að hafa orðið, eins og við þekkjum öll, á högum fólks og hegðan í samfélaginu.

Við þekkjum baráttu stúdenta fyrir bættum kjörum. Í könnun á meðal evrópskra stúdenta, sem vísað er til í greinargerð með frumvarpinu, kemur fram að íslenskir námsmenn hafa almennt meiri áhyggjur af stöðu sinni en aðrir evrópskir námsmenn. Háskólastúdentar hér eru almennt eldri og hvergi er lægra hlutfall í yngsta aldurshópnum en hér, þ.e. þeir sem halda áfram námi beint úr menntaskóla og eru yngri en 24 ára. Þá er um leið hærra hlutfall af eldri nemum hér. Það bendir til þess að íslenskir námsmenn tefjist í námi, mögulega vegna vinnu og þá vegna þess að þeir eru nauðbeygðir til að vinna með námi eða þá að samfélagið, menningarlega eða af öðrum orsökum, er þannig upp byggt. Hlutfallið verður síðan lægra eftir 30 ára aldur. Það er einnig umhugsunarvert, met ég. Ef maður hugsar þetta með tilliti til annarra breytna sem hafa áhrif á þetta væri áhugavert að skoða málið enn frekar. Það kann að vera að það hafi verið gert en ég hef ekki rekist sérstaklega á það í gögnum með málinu eða í greinargerð. En allt að einu hefur í langan tíma verið kallað eftir þessum breytingum og auknum stuðningi, þeim stuðningi sem við viljum veita námsmönnum, og við sjáum loks hilla undir að það raungerist hér.

Eins og ég vísaði til fór 1. umr. fram 1. nóvember og meðganga frumvarpsins í meðförum hv. allsherjar- og menntamálanefndar hefur tekið nokkurn tíma. Nefndin hefur kallað eftir alls kyns mikilvægum og þörfum upplýsingum og mér sýnist umræðan vönduð. Auðvitað reynum við alltaf að vanda okkur en það er svo margt, þegar farið er í svona kerfisbreytingar, sem kallar á nánari skoðun og ég vil meina að nefndin hafi staðið sig afar vel í að kalla eftir gögnum sem skipta máli varðandi frumvarpið og ekki síst sem snýr að útlánum og vaxtakjörum og þess háttar þáttum sem er og verður alltaf í eðli sínu flókið.

Megnið af þessum tíma í umfjöllun málsins bar hv. varaþingmaður Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, Þórarinn Ingi Pétursson, ábyrgð á því. Hann situr ekki þessa dagana á þingi en mér finnst ástæða til að þakka honum sérstaklega fyrir þá miklu vinnu sem hann lagði á sig við úrvinnslu þessa máls. Við keflinu tók hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir og hafði hér framsögu meiri hlutans í málinu. Hún fór vel yfir kosti þessa nýja fyrirkomulags í framsögu sinni, nánari útfærslu og þær fjölmörgu breytingar sem meiri hluti nefndarinnar gerir á málinu. Ég ætla ekki að fara neitt sérstaklega yfir það hér, virðulegur forseti, en þær mæta að mínu mati mjög vel þeim athugasemdum sem hafa komið fram við málið í umfjöllun og í meðförum nefndarinnar, margar tæknilegar en margar líka til að bæta málið og kannski ekki síst það sem snýr að möguleikum eldri nemenda til að fara í nám og njóta þeirra kosta sem þetta mál felur í sér, og kemur fram í breytingartillögu í bráðabirgðaákvæði. Það er fært upp í 40 ára aldur, viðmiðið fyrir námsmenn sem geta valið að endurgreiða námslán með tekjutengingu séu námslok áður eða á því ári — þegar 40 ára aldri er náð, eins og það er orðað. Þetta er mjög til bóta og var skoðað sérstaklega á lokametrum í umfjöllun málsins.

Þetta nýja fyrirkomulag, nýr sjóður, felur í sér nauðsynlegar breytingar og það er sannarlega tími til kominn. Mér finnst umræðan hafa verið þannig að samstaða sé um að ná þessum breytingum fram, þessum nýja sjóði. Það er helst grunnframfærslan sem hefur verið til umræðu og birtist líka í þeim þremur minnihlutaálitum sem hafa verið hér til umræðu. Meiri hlutinn fer engu að síður ágætlega yfir það og hnykkir á því hvernig með það er farið af úthlutunarnefnd og af sjóðstjórn og ítrekar skyldur sjóðstjórnar og vísar í þá skyldu að slík framfærsla eigi að duga. Það er síðan hæstv. ráðherra að blessa það hverju sinni.

Það var löngu tímabært að auka námshvatana í þessu kerfi, koma raunverulegum styrkjum á, gera þann möguleika hluta af lánakerfinu og um leið tryggja jafnræði í kerfinu fyrir námsmenn. Þetta er kannski jákvæðasta breytingin en jafnframt sú breyting sem við lesum um í 15. gr. með frumvarpinu sem ég er meðmæltur og flestir þeir sem hafa tekið hér til máls. Um er að ræða afar jákvæða breytingu, ég ætla að fletta upp á 15. gr., en það er styrkur vegna framfærslu barna, þ.e. ef barn er með lögheimili hjá lánþega eða ef lánþegi er meðlagsskyldur. Þetta er viðbót sem á sér ekki fordæmi annars staðar. Það er jákvætt í þessu.

Það er ýmislegt mjög jákvætt í þessu máli og um grundvallarbreytingar að ræða. Það má líka nefna að útgreiðslur verða jafnari með mánaðarlegum afborgunum, væntanlega til aukins hagræðis fyrir nemendur. Námsmenn hafa jafnframt val um endurgreiðsluleiðir og að öllu jöfnu ætti að vera betri taktur í endurgreiðslum mánaðarlega og í takti við tekjur, og eins er val um að fara verðtryggða eða óverðtryggða leið.

Við höfum verið að auka verulega fjármuni í nýsköpun og þar er menntun lykilforsenda og því eru þessar breytingar jákvæðar að því marki. Þetta ætti að auka hvata til náms og sinna betur þörfum námsmanna þegar fram í sækir.

Auðvitað á eftir að koma reynsla á málið, virðulegi forseti, og ég held að sá endurskoðunartími sem er settur fram, þrjú ár, sé hæfilegur miðað við að við erum að fara af stað með grundvallarbreytingar. Allt að einu á þetta að leiða til þess að nemendur verði með betri fjárhagsstöðu að loknu námi og beri þar af leiðandi lægri endurgreiðslur og skili þeim með jafnari hætti og skyldmenni eru ekki ábyrgðarsett. Ríkisstjórnin tók af skarið áður en við tókum frumvarpið til 2. umr. í tengslum við kjarasamninga, lækkaði vexti og gaf uppgreiðsluafslátt og lækkaði afborganir, auk þess sem ábyrgðarmenn voru felldir brott.

Ég held að ekki sé vafi á því, og það hefur speglast mjög vel í þessari umræðu, virðulegi forseti, að með þessum breytingum verður nýr Menntasjóður sá félagslegi stuðningur, það jöfnunartæki, sem að er stefnt og tekur enn frekar tillit til mismunandi aðstæðna námsmanna. Það mun verða allra ávinningur og leiða til betri nýtingar fjármuna þegar upp er staðið.