150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við förum brátt að slá botninn í umræðu um, þetta góða frumvarp, um Menntasjóð námsmanna, að þessu sinni. Þetta er mikilvægt frumvarp eins og öll málefni sem lúta að skólastarfi, menntun og þekkingu þjóðarinnar á öllum stigum. Endurskoðun á stuðningskerfum gagnvart námsfólki hefur verið til umfjöllunar stjórnvalda í nokkur misseri og það er gleðilegt að við skulum vera komin þó á þennan rekspöl að horfa ef til vill til þess að nýtt námslánakerfi verði fljótt að veruleika.

Ítrekað hefur verið vísað til þess að menntun sé máttur. Menntun og skólaganga eykur jafnan þekkingu og víðsýni, styrkir og byggir upp einstaklinginn og eflir samfélögin til að takast á við æ flóknari verkefni inn á við og í samskiptum þjóða í milli.

Við Íslendingar höfum jafnan talið okkar menntaða þjóð í víðum skilningi þess hugtaks, talið okkur lærdómsþjóð, bókaþjóð, vísa og snjalla. Þetta er nú líklega í stórum stíl ofmetið en okkur fer fram í samanburði við nágrannalöndin. Það er líka lífsspursmál. Lítil þjóð, fámennt samfélag, þarf að vera vopnfær á sem flestum sviðum, vopnfær á siðaða vísu. Því er það lykilatriði að það viðmót sem við sýnum námsfólki sé hvetjandi og að jafnræði ríki, að allir sem hafa hug á að stunda nám eigi þess kost, óháð efnahag, stétt og stöðu.

Í þessari stuttu ræðu ætla ég aðeins að tæpa á menntunarstigi Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir samkvæmt menntatölfræði OECD og sömuleiðis fjalla aðeins um viðmót gagnvart námsfólki og fyrirgreiðslu samfélagsins í sögulegu ljósi, nú á þessum tímamótum þegar við fjöllum um nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna.

Staðan er sú að á Íslandi eru fleiri karlar án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25–34 ára en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Staða karla er aðeins lakari á Ítalíu, Spáni og Portúgal af löndum Evrópu. Þetta kemur fram í tölfræðiupplýsingum frá OECD 2018. Munurinn milli kynjanna er óvíða jafn mikill og á Íslandi eða 9 prósentustig, konum í vil. Þarna eru karlar eftirbátar. Að því leyti svipar Íslandi til landa í sunnanverðri álfunni en þessi munur hefur þó verið að minnka eftir því sem árunum vindur fram. Karlarnir hafa verið að gyrða sig í brók og herða sig að þessu leyti.

Virðulegi forseti. Staðan á Íslandi er þó mun betri þegar litið er til háskólamenntunar. Í aldursflokknum 25–64 ára höfðu 21% Íslendinga lokið bakkalársgráðu árið 2017. Meðaltalshlutfall OECD var 17%. Hér stöndum við betur að vígi en hin Norðurlöndin. Þessar tölur koma á óvart því yfirleitt hefur þeirri mynd verið varpað upp að hin Norðurlöndin standi okkur framar að þessu leyti. Þetta eru jákvæð teikn, en við þurfum þó að vera á tánum áfram og sérstaklega að huga að öllum okkar þegnum, hópum sem hafa t.d. sérþarfir, þeim sem búa við skerta starfsorku eða fötlun og að innflytjendum og fólki af erlendum uppruna.

Núgildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna tóku gildi árið 1992, eins og vikið hefur verið að í fyrri ræðum, en hafa tekið breytingum frá þeim tíma, á tveggja til fjögurra ára fresti og það er löngu tímabært að taka þau upp í heild sinni og færa þau til þess horfs sem nútímasamfélag þarf að bjóða ungu fólki sem við reiðum okkur á til framtíðar í breyttri samfélagsgerð.

Saga opinberrar námsaðstoðar á Íslandi er orðin býsna löng, nær alveg til áranna þegar Háskóli Íslands var stofnaður 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Fyrstu árin var um að ræða lága styrki sem ríkið veitti án þess að umgjörðin væri mjög formleg en frá árinu 1928 var farið að veita námslán í gegnum Lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands. Árið 1952 lagði stúdentaráð Háskóla Íslands fram beiðni til ríkisstjórnarinnar um að veitt yrði ríkisframlag til lánasjóðsins. Var orðið við þeirri beiðni með stofnun Lánasjóðs stúdenta. Lög voru sett um stofnun hins nýja sjóðs og honum tryggt ríkisframlag. Með lögum nr. 52/1961 var Lánasjóði íslenskra námsmanna komið á laggirnar og árið 1976 voru enn sett ný lög um námslán og námsstyrki. Þessi málefni voru því mjög í deiglunni og við að feta okkur inn í nýja tíma.

Þróunin hélt áfram og árið 1982 voru sett ný lög um námslán og námsstyrki og með þeim voru gerðar tvær grundvallarbreytingar á námslánum. Sú fyrri fól í sér að færa skyldi veitt námslán í 100% af framfærsluþörf námsmanns í nokkrum skrefum. Þetta voru metnaðarfull markmið. Hin síðari sneri að útreikningi á endurgreiðslum námslána með það að markmiði að hækka endurgreiðsluhlutfallið nokkuð en það höfðu ekki verið væntingar löggjafans að þessi lán yrðu greidd upp að fullu. Hlutfallið hækkaði úr 66% í 88%.

Árið 1992 voru gerðar róttækar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna með lögum, sem m.a. miðuðu að því að lánstíminn var ekki lengur miðaður við tiltekinn árafjölda, sem var 40 ár, heldur féllu lánin ekki niður og skyldu því greiðast að fullu. Nokkrum sinnum á fyrri þingum hefur verið gerð atlaga að þessum lögum, viðleitni í þá átt að breyta að einhverju leyti veigamiklum atriðum. Fjórum sinnum hefur þingmönnum Samfylkingarinnar ekki tekist að ná þessu í gegn, síðast á 146. þingi þegar sá sem hér stendur lagði fram frumvarp um þessar breytingar. Það hafði fyrst verið reynt á 139. þingi. Breytingartillögurnar gengu út á að hafa áhrif á endurgreiðslu lánanna, ákvæði um ábyrgðir og niðurfellingu lána. Lagðar voru til mikilvægar breytingar sem sumpart rata inn í það frumvarp sem við ræðum hér í kvöld.

Sem dæmi um breytingartillögur Samfylkingarinnar voru ákvæði um að eftirstöðvar námslána skyldu falla niður við 67 ára aldur, niðurfellingu ábyrgða við 67 ára aldur eða við fráfall ábyrgðarmanns, að ábyrgðirnar skyldu ekki ná yfir gröf og dauða. Margar raunasögur og erfið dæmi eru til um það að ábyrgðir hafa fallið á gjörsamlega vandalaust fólk og skapaðar raunir í mörgum fjölskyldum. Á þeim tíma þegar við lögðum þessar breytingartillögur og frumvarp fram voru um 30 lán í innheimtu þar sem erfingjar eða dánarbú greiddu af námslánum. Þá var í frumvarpi okkar lagt til að heimild yrði að finna um niðurfellingu eftirstöðvar skuldabréfs, að hluta eða í heild, vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara. Á það skortir að okkar áliti í hinu nýja frumvarpi um Menntasjóð námsmanna, það eru ákvæði um að fresta megi greiðslum en annað ekki.

Virðulegur forseti, Landssamtök íslenskra stúdenta hafa fylgt vel eftir þeirri vinnu sem fram hefur farið við undirbúning þessa frumvarps. Það er vel. Þau hafa gert margar athugasemdir og kynnt tillögur sem gagnast hafa ágætlega og ég tel að hafi ratað inn í þetta frumvarp. Samtökin telja breytingar á lánasjóðskerfinu auðvitað löngu tímabærar og vonast eftir að Menntasjóður námsmanna leiði til nauðsynlegra úrbóta sem lengi hefur verið beðið eftir, það fái að þjóna tilgangi sínum og telja að frumvarpið sé gott fyrsta skref en hefðu viljað sjá fleiri breytingar og að lengra hefði verið gengið á nokkrum sviðum, t.d. í þá átt sem menn hafa verið að skoða hjá nágrannaþjóðum. En það eru mjög merk og ágæt ákvæði í frumvarpinu sem samtökin fallast á og styðja.

Virðulegur forseti. Margt horfir til mikilla bóta í þessu frumvarpi eins og það hefur þróast í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar. Þar má nefna styrkjaákvæðin og bæði það sem snýr að námsmönnum beint sem ljúka námi sínu á áætlun og líka gagnvart fjölskyldum og barnastyrkjum. Samtök stúdenta gerðu athugasemdir við vexti og þeir hafa verið lækkaðir og það er vel.

Frumvarpið hefði vissulega litið nokkuð öðruvísi út ef það hefði verið samið á forsendum jafnaðarmanna. Einn af hornsteinum í stefnu Samfylkingarinnar er að það sé samfélagslegt verkefni og hlutverk sjóða á borð við Menntasjóð námsmanna að tryggja jafnrétti til náms, óháð efnahag. Frá stofnun Lánasjóðs íslenskra námsmanna árið 1961 hefur hann gegnt lykilhlutverki varðandi það að gera fólki frá efnaminni heimilum kleift að mennta sig og í raun og veru gjörbreytt íslensku samfélagi. Á seinni árum hefur sjóðurinn hins vegar ekki náð að gegna þessu hlutverki, að fylgja eftir straumum tímans. Nú er svo komið að talsvert hærra hlutfall íslenskra námsmanna kýs að vinna með námi en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Námsmenn telja að sjóðurinn komi ekki til móts við þarfir þeirra og þeir velja aðrar leiðir til þess að fjármagna sitt nám. Það er miður. Nám er krefjandi og við eigum að skapa námsmönnum þannig viðurværi og viðmót að þeir geti sinnt námi sínu ótruflaðir ef þeir svo kjósa. Þetta er full vinna. Frumvarpið ræður ekki nægilega vel bót á þessu og tryggir ekki nægilega vel markmiðið um jafnrétti til náms.

Þess vegna leggur 2. minni hluti til breytingar í því skyni að tryggja að stuðningurinn sé raunverulega óháður efnahag. Framsögumaður okkar í Samfylkingunni og nefndarmaður í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson, gerði sérstaklega að umtalsefni þegar hann fylgdi nefndaráliti minni hluta úr hlaði hlutskipti innflytjenda og flóttafólks og undanþágumöguleika þeirra frá lágmarkskröfum um námsframvindu á meðan þeir væru að ná tökum á regluverki hins íslenska samfélags og tökum á tungumálinu. Hv. þingmaður telur, og það er samdóma álit okkar, að atriði af þessu tagi verði að lögfesta.

Herra forseti. Það eru enn tækifæri til úrbóta og þess er vænst að í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram í þingsal taki nefndin frumvarpið til skoðunar á ný og leitist við að gera á því bragarbætur sem komi til móts við mikilvægar og marktækar athugasemdir.