150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Já, það var kominn tími til þess að koma til móts við námsmenn. Ég kem bara hingað upp til að ítreka eitt lítið atriði sem lýtur að ábyrgðarmönnum. Mér finnst svolítið einkennilegt að ábyrgðarmenn eldri lána skuli ekki fá möguleika á því að falla frá ábyrgð sinni algerlega skilyrðislaust. Það væri gaman að vita hversu mikið af eldri lánum er í vanskilum sem í rauninni veldur því að ekki er hægt að gefa því ágæta fólki sem hefur gengist í ábyrgð fyrir 30, 40 árum tækifæri á því að losna undan þeim. Það er líka svolítið skelfileg hugsun, svo ekki sé meira sagt, að ef þú ert ekki búinn að greiða upp lán við 65 ára aldur verði það hreinlega gjaldfellt. Þú hefur möguleika á því að sækja um framlengingu. Það er í höndum stjórnar sjóðsins að ákveða það. Það sama á við ef þú hefur verið í vanskilum einhvers staðar og ætlar að sækja um lán, þá er það líka í höndum stjórnar sjóðsins að ákveða hvernig ábyrgð þau vilja fá, hvort þau vilja fá ábyrgðarmann og ef hann er ekki nógu góður og lántaki á ekki nógu stóra fjölskyldu eða gott tengslanet til þess að finna nógu góðan ábyrgðarmann þá geta þau jafnvel farið fram á veðlán. Þetta er sérstakt ef við ætlum að gæta samræmis á milli þess gamla sem við erum að tala um og þess nýja og þeirra tækifæra og betri kjara sem er verið að bjóða í dag, t.d. ef námsmaður hefur lokið námi sínu á tilskildum námstíma plús eitt ár gæti hann hugsanlega fengið 30% niðurfellingu á láninu til viðbótar vegna einhverra ákveðinna aðstæðna.

Ég hef reyndar mestar áhyggjur af ábyrgðarmönnunum og gömlu lánunum sem virðast eiga að geta elt þá út yfir gröf og dauða eftir því hvernig lántakinn hefur staðið sig. Og því miður, virðulegi forseti, þá eru alltaf einhverjir sem ekki geta staðið sig af hvaða ástæðu sem það kann að vera, það liggur ekki fyrir. Sumir lenda einfaldlega í slysum, verða fyrir áföllum og geta hreinlega ekki staðið við sitt. Þá lendir það kannski á afa gamla sem er orðinn 82 ára að sjá um restina, jafnvel þó að hann sé einn af þeim sem búa við fátækt. Það er ástæða til þess nú, finnst mér, í meðförum nefndarinnar að skoða þetta enn betur. Ég held að við gerðum vel með því að sýna gamla fólkinu virðingu og lofa því að losna undan þessari ábyrgð eins og við erum að reyna að setja meira inn í nýju lánin.