150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir sérstaklega skemmtilega ræðu þar sem hann tók sér tíma í að fara yfir sögu sjóðsins. Það var mjög áhugavert og skemmtilegt.

Eftir umræðuna í dag og fyrr í vikunni heyrist mér þeir sem hafa tekið þátt í henni vera sammála um að mikil verðmæti séu fólgin í menntun og menntun sé fjárfesting til framtíðar og þar sé fjármunum alltaf vel varið. Við eigum að vera framsækin í menntamálum og við þurfum að gæta að því að jafnrétti til náms sé tryggt, að þeir sem vilja læra geti lært og aflað sér menntunar. Við höfum líka verið sammála um að þörf sé á breytingum á núverandi lánasjóðskerfi, þannig að við erum sammála um fleira en við erum ósammála um, og það er vel. Umræðan hefur verið góð og skemmtileg og mjög málefnaleg.

Mig langar til að draga sérstaklega fram nokkur atriði úr frumvarpinu, svo að skilningur okkar þingmanna sé hinn sami á markmiðum frumvarpsins og efni þess. Fyrst vil ég segja að með frumvarpinu er ekki lagt til að stofnaður verði nýr sjóður heldur er einungis verið að breyta nafninu á honum til að endurspegla endurbætt námslánakerfi. Eldra lánakerfið verður áfram rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið. Gert er ráð fyrir sjö árum þar til það verður í framlögðu frumvarpi. Einnig er mikilvægt að það komi skýrt fram í umræðunni að nýja kerfið er tvískipt. Lánahlutinn er fjármagnaður með afborgunum námslána lánþega. Lánahlutinn á að vera sjálfbær, en námsaðstoð ríkisins felst fyrst og fremst í niðurfellingu á hluta námslána lánþega og til framfærslu barna þeirra.

Í meðfylgjandi gögnum kemur fram að rúmlega 90% lánþega munu koma betur eða jafn vel út úr nýja kerfinu. Um er að ræða bætta þjónustu við námsmenn og einstaklingsmiðaðri og eins og margir hafa nefnt í sínum ræðum er meira tillit tekið til aðstæðna hvers og eins hvað varðar námsframvindu og aðstæður hverju sinni.

Frumvarp um Menntasjóð hefur verið lengi í fæðingu en núgildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru frá árinu 1992. Á undanförnum árum hafa verið lögð fram tvö frumvörp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, annars vegar á 141. löggjafarþingi vorið 2013 og hins vegar á 145. löggjafarþingi vorið 2016. Við gerð þessa frumvarps voru athugasemdir sem bárust við bæði frumvörpin hafðar til hliðsjónar og leitast var við að koma til móts við þau sjónarmið. Svo að ég telji nokkur atriði upp sem eru ákveðin nýmæli og tvímælalaust til bóta fyrir námsmenn er lagt til að námslán verði greidd út mánaðarlega í stað þess að þau séu greidd út tvisvar á ári, sem er ákveðið hagræði og þægindi fyrir lántakendur. Val verður um óverðtryggð og verðtryggð lán. Tekjutenging lána stendur enn til boða. Meiri hlutinn leggur til að það verði upp að 40 ára aldri, alla vega tímabundið í ljósi Covid-faraldurs, að það verði tímabundið ákvæði. Einnig erum við að tala um að fella niður og taka út ábyrgðarmannakerfið. Það er mjög stórt skref sem hefur tekið mörg ár að vega og meta og útfæra aðra hluta kerfisins til þess að það gangi hreinlega upp, vegna þess að þetta hangir allt saman. Við erum aldrei með krónur og aura í höndunum við hverja litla breytingu heldur erum við alltaf að tala um milljarða. Það skiptir því máli að aðrir þættir frumvarpsins, sérstaklega þar sem markmið þess er að lánahlutinn sé sjálfbær, gangi allir upp. Við drögum náttúrlega eins mikið úr áhættu ríkissjóðs og mögulegt er.

Einnig eru breytingar um að endurgreiðsla lána hefjist fyrr, þ.e. eftir eitt ár, en núna eru það tvö ár. Þetta mun leiða til þess að greiðslubyrði lántakenda lækkar. Þessar breytingar eru í samræmi við þau kerfi sem eru til staðar annars staðar á Norðurlöndunum, þar hefjast endurgreiðslur strax og námi lýkur, í síðasta lagi ári síðar, þannig að við erum með þessu að færa okkur meira í átt að norræna módelinu.

Um hríð hefur legið fyrir að efna þyrfti til heildstæðrar endurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og færa löggjöfina í átt að nútímanum og þess samfélags sem við búum í. Áhættugreiningar í ársskýrslu lánasjóðsins hafa t.d. undirstrikað þörf fyrir breytingar á starfsemi hans og gildandi lögum. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað í menntakerfinu, ekki síst á háskólastigi, og setja ný lög í takt við nýja tíma og breyttar þarfir námsmanna. Áratugum saman hafa íslenskir námsmenn barist fyrir betri kjörum, auknum réttindum námsmanna og jöfnum tækifærum til náms. Á undanförnum árum hafa þeir jafnframt kallað eftir bættu námslánakerfi og auknum fjárhagslegum stuðningi við nám sitt frá íslenska ríkinu. Kannanir hafa sýnt að íslenskir námsmenn hafa metið stöðu sína verri en námsmenn í nágrannalöndunum. Meðallán lánþega hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hafa hækkað jafnt og þétt á síðustu árum. Helstu ástæðu þess má rekja til þess að námsmenn eru lengur í námi og fara í lengra og dýrara nám með háum skólagjöldum, bæði innan lands og erlendis. Þá hefur meðalaldur lánþega farið hækkandi.

Herra forseti. Frumvarpið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu á ríkisstyrkjum til lánþega með félagslegum stuðningssjóði með því að koma á hvatakerfi fyrir námsmenn til að klára nám sitt á tilsettum tíma. Frumvarpið hefur í för með sér kerfisbreytingar á núverandi námsaðstoðarkerfi. Með þeim kerfisbreytingum má gera ráð fyrir bættri námsframvindu námsmanna sem mun stuðla að betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni í framtíðinni. Breytingarnar munu m.a. hafa í för með sér að námsaðstoð ríkisins verði gagnsærri, að staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verði efld og aukið jafnræði verði meðal lánþega.

Þá er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp ákvæði um námsstyrki en slík ákvæði er að finna í eldri lögum um námslán allt til setningar núgildandi laga árið 1992. Þessu nýja kerfi mun með þeim hætti svipa meira til norrænna námsstyrkjakerfa. Auk þeirra breytinga vil ég líka nefna að í framlögðu frumvarpi eru lagðar til heimildir til ráðherra til ívilnana, t.d. ef skortur er á mannskap í ákveðnar starfsstéttir, og þá er hægt að bregðast við því og beita námslánakerfinu í þeim tilgangi að fjölga fólki sem sækir nám í tilteknum starfsstéttum. Hvað varðar skort á sérhæfðu fólki á landsbyggðinni er hægt að fá sérstaka heimild til að ívilna þeim aðilum sem hyggjast sækja sér nám og menntun sem þörf er á á tilteknum svæðum. Þetta er stórt og mikilvægt skref. Einnig leggur ríkið til styrki, barnastyrki, eins og margir hafa nefnt, og það á líka við til handa meðlagsgreiðendum. Það er ekki eingöngu til þeirra foreldra sem hafa börnin á sínu lögheimili. Þarna er tekið tillit til þeirra foreldra sem hafa börnin hjá sér og þeirra sem greiða meðlag.

Ég ætlaði að segja svo margt, þetta er svo merkilegt og stórt mál, en tíminn er að verða útrunninn. Mig langaði bara til að þakka nefndinni fyrir góða vinnu og vil nota tækifærið og þakka hv. varaþingmanni, Þórarni Inga Péturssyni, fyrir framlag hans, sem sat í marga mánuði í þessari nefnd en ég tók við boltanum af honum. Ég þakka fyrir mjög vandaða umræðu og legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til frekari umfjöllunar á milli umræðna.