150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[20:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fínu framsögu á mjög góðu og gegnu máli. Það sem mig langar til að spyrja um er: Er tekinn af allur vafi um að þetta aðgengi verði tryggt? Eða er þetta svona eins og oftast áður, þegar við erum að glíma við og reyna að keyra í gegn réttindi fatlaðs fólks, að það er einhver „góður vilji“ og „fallegt tal“ en kannski ekkert um raunverulegar framkvæmdir? Eins og í þessu tilviki, sennilega, sem er með hreinum ólíkindum. Ég hef sterkt á tilfinningunni að það eigi ekkert að tryggja aðgengi fatlaðra að þessum hleðslustöðvum, það sé sem sagt ekki hafið yfir allan vafa að þeir geti notið sömu réttinda og aðrir þegar kemur að því, og oftar en ekki, eins og við sjáum í samfélaginu, að þegar fatlaðir koma og ætla að tengja sig í stöðvar, þessar fáu sem til eru, þá rekast þeir venjulega á kant eða eitthvað slíkt þannig að þeir sitja þar fastir.

Ég vona svo sannarlega að ég sé bara algjörlega í bullinu, virðulegi forseti, en ég er ansi hrædd um að svo sé ekki að þessu sinni.