150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek bara undir áhyggjur hv. þingmanns af því sem kemur fram í andsvarinu, að það sé ekki hugsunin að tryggja fullt aðgengi fatlaðra að þessari þjónustu almennt í samfélaginu og í fjöleignarhúsum. Þetta kom rækilega fram fyrir nefndinni. Við ræddum við formann Sjálfsbjargar, Berg Benjamínsson, um þessi mál. Skilningur okkar í nefndinni er alveg klár, að tryggja eigi þetta aðgengi. En við höfum séð það í gegnum starf okkar í nefndinni, og í gegnum þau frumvörp sem eru nú í gangi á öðrum vígstöðvum, að því miður er ekki alltaf nógu vel hugað að aðgengi fyrir fatlaða, jafnvel þó að það sé lögbundið. Það er auðvitað mikill misbrestur á því víða í samfélaginu, hjá sveitarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum, að aðgengi fatlaðra sé tryggt. Við sjáum þetta líka í nýbyggingum sem er verið að taka út og afhenda. Þar er aðgengi fatlaðra ekki tryggt samkvæmt byggingarreglugerð. Þess vegna tek ég undir áhyggjur hv. þm. Ingu Sæland. Það er auðvitað okkar hlutverk og skilningur og vilji að þau skilaboð frá okkur fari alla leið og þetta aðgengi verði bætt eins og við óskum eftir og viljum tryggja.