150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[20:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir svarið. Ég heyri það og veit að hann er með hjartað á réttum stað hvað þetta varðar og er hér af alúð og vilja að fylgja þessu eftir af góðum hug. En ég vil gleðja hv. þingmann með því að þetta er eitthvað sem við getum ákveðið í sölum Alþingis. Þetta er eitthvað sem þarf ekki að vera innan gæsalappa ef við viljum hafa það tryggt. Við höfum líka okkar úrræði til að ganga svo frá og búa svo um hnútana að því verði fylgt eftir, þannig að núna á þessum tíma, framfaratíma, þegar við erum að reyna að skipta yfir í vistvæna græna orku og breyta fjöleignarhúsum, að reyna að koma til móts við akkúrat þær framfarir í samfélaginu sem við byggjum á, þá gætum við gengið á undan með góðu fordæmi.

Hvað lýtur að öðrum vanköntum í samfélaginu, sem snúa að fötluðu fólki, þá getum við a.m.k. byrjað þarna og reynt að fylgja því almennilega eftir. Þetta er ástæðan fyrir því að minn góði samflokksmaður, Guðmundur Ingi Kristinsson, skrifar undir þetta annars ágæta álit með fyrirvara, en að öðru leyti er um mjög gott frumvarp að ræða. En eins og ég segi er það okkar hér að vinna með það. Nú kemur málið aftur fyrir nefndina og við getum bara fylgt þessu enn betur eftir. Ég vil trúa því og efast ekki um það eina mínútu að hver einasti þingmaður hér inni muni taka undir það að þessu sinni að tryggja þessi mannréttindi fatlaðs fólks, að geta náð sér í græna orku hjálparlaust í sínum hjólastól eins og allir aðrir. Þannig eigum við að hafa það.