150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[21:03]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir svarið. Lög um fjöleignarhús eru frá árinu 1994. Ég held að í 6. og 8. gr. sé tekið á því hvað tilheyrir sameign og hvað ekki og ég held að það sé óyggjandi að bílastæði gera það. En ég velti fyrir mér hvort þetta muni mæta einhverri tortryggni hjá íbúum því að við þekkjum mörg dæmi um að íbúum í fjöleignarhúsi, sem búa kannski í sex, sjö hæða húsi, og þakið fer að leka, að þeim sem búa á neðri hæðunum finnst algjörlega fráleitt að þeir séu að taka þátt í leku þaki eða lekum lögnum í sameign sem þeir verða ekki varir við. Þetta er nú svona.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um eitt, af því að ég hef ekki kynnt mér umsagnir eða gestakomur til nefndarinnar: Bar eitthvað á því í umsögnum að menn legðust gegn þessu, væru neikvæðir gagnvart því að túlka þetta með þessum hætti, að um sameign væri að ræða? Er eitthvað sérstakt í veginum? Er hægt að hindra það eða meina einstaklingi sem býr í fjöleignarhúsi að setja upp sína eigin stöð? Þarf hann að leita samþykkis hússtjórnar fyrir slíkri framkvæmd, sem ég geri frekar ráð fyrir að þurfi?