150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[21:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem aðallega hingað til að velta upp einu atriði og óska eftir, ef ekki er búið að því, að málið gangi til nefndar milli umræðna. Sú aðferð sem Reykjavíkurborg notar m.a. er að búa til sjóð, styrktarsjóð, þangað sem hægt er að sækja um styrki til að koma upp slíkum rafhleðslubúnaði. Ég hugsa að það væri ágætt að taka góða umræðu um þá leið.

Ég fór síðan að líta aðeins á nefndarálitið og frumvarpið áðan. Hugsunin á bak við það er vitanlega góð, þ.e. að skýra leikreglur þegar kemur að því vandamáli sem við erum í í dag að í mörgum gömlum húsum er ekki gert ráð fyrir hleðslustöðvum og slíku og sjálfsagt er það svo í mjög fáum fjölbýlishúsum nema þeim sem hreinlega er verið að byggja. Mér hugnast ekki að hægt sé að skylda alla íbúa eða íbúðareigendur til að taka þátt í slíkum kostnaði. Ég velti fyrir sér hvort við séum ekki farin að ráðskast töluvert mikið með réttindi fólks til að ráðstafa fjármunum sínum og eignum þegar að þessu kemur. Ég ætla ekki að nefna nein dæmi en ég velti fyrir mér hvort upp geti komið annars konar atriði, tæknibreytingar eða aðrar aðstæður, þar sem íbúi, segjum bara einhver á mótorhjóli, þurfi að fá sérstakt stæði eða aðstöðu við húsið fyrir slíkt farartæki, að þá verði litið svo á að menn hafi farið þá leið með rafbílana að skylda alla til að taka þátt í því og hvers vegna þá ekki í þessu líka?

Ég held að þetta sé ekki rétt leið að fara núna. Mögulegt hefði verið að fara þá leið, og vil ég bara velta því upp án þess að hafa endilega hugsað það mjög djúpt, ég tek það fram, að eigendur rafbíla þar sem eru næg bílastæði, það þarf vitanlega að vera háð því að bílastæði fylgi hverri íbúð, fái hreinlega úthlutað ákveðnu bílastæði og sjái svo sjálfir um að setja þennan búnað upp.

Mér finnst heldur mikið ráðskast með fólk í fjölbýlishúsum að skylda það til að gera þetta. En ég hef skilning á þörfinni, að það þurfi að skýra reglurnar og þetta þurfi að liggja fyrir. En það er svolítið eins og í ráðstjórnarríkjunum að segja fólki að taka þátt í þessu.

Ég óska eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr.