150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

fyrirkomulag nefndarfunda.

[10:31]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Á þingfundi 12. mars sl. voru veitt tímabundin afbrigði frá þingsköpum til að víkja frá 1. mgr. 17. gr. um skyldu nefndarmanna til að mæta á nefndarfundi og einnig frá 22. gr. um ályktunarbærni nefndarfunda. Afbrigðin voru svo framlengd til loka þessa þings á þingfundi þann 14. apríl sl.

Í framhaldi af breytingum á takmörkunum á samkomum vegna farsóttar hefur forseti ákveðið, að höfðu samráði við forsætisnefnd og formenn fastanefnda, að breyta fyrirkomulagi á fundum fastanefnda frá því sem verið hefur frá 12. mars sl.

Í fyrsta lagi verða nú fundir fastanefnda á ný haldnir á föstum fundarstað nefnda á Alþingi, samkvæmt fundarboði. Nefndarmenn skulu því að jafnaði vera staddir á fundarstað, en þeim nefndarmönnum sem óska þess að taka þátt í fundi nefndar með fjarfundabúnaði af sóttvarna- eða heilsufarslegum varúðarástæðum, er slíkt heimilt. Nefndarmaður sem tekur þátt í fundi með fjarfundabúnaði af þessum ástæðum telst hluti af ályktunarbærum fundi, samanber áðurnefnd afbrigði sem enn gilda.

Í öðru lagi skulu gestir sem kvaddir eru á nefndarfund áfram taka þátt í fundi með fjarfundabúnaði nema þegar nefnd metur svo að nauðsynlegt sé að viðkomandi séu staddir á fundi. Gestir sem mæta á nefndarfundi skulu þó aldrei vera fleiri en tveir í einu.