150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn mánudag fór hér fram umræða um atvinnuleysi á Suðurnesjum og uppbyggingu á varnarsvæðinu. Það liggur fyrir svart á hvítu hverjir standa vörð fyrir fólkið á Suðurnesjum. Það eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér voru skammaðir af öðrum þingmönnum Suðurkjördæmis úr þessum stól. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Logi Einarsson, kallaði okkur, þingmenn Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi, gasprara í þessum umræðum, þar sem við vorum að berjast fyrir fólk sem býr við 30% atvinnuleysi. Þúsundir manna, þúsundir heimila, eru án vinnu og þingmenn sem eru að berjast fyrir því eru kallaðir gasprarar. Undir það tók þingmaður Samfylkingarinnar á Suðurnesjum, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, og talaði um svik í Helguvík, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði svikist um alla uppbyggingu í Helguvík. Hún talaði ekki um uppbygginguna sem svikist var um þegar hún var fjármálaráðherra og færa átti sama samning frá Bakka yfir á Helguvík. Ég held að það verði engin störf til með því að tala um gömlu svik. Það verða engin störf til með því.

Mér þótti leitt að þingmaður Framsóknarflokksins á Suðurnesjum skyldi taka undir það og vilja tala mál í dróma og rólegheit. Það liggur fyrir að á næstu vikum þarf að skapa störf fyrir þúsundir einstaklinga á Suðurnesjum. Það munu engin störf verða til með því að fara einhverjar formlegar leiðir. Ég mun fara yfir á rauðu, ég mun ýta frá mér til að skapa störf. Formlegheitin heyra sögunni til ef störfin verða ekki til. Ég skora á þingmenn Suðurkjördæmis að standa saman að því að búa til störf, en ekki fara í skotgrafirnar.