150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við vitum öll að skógar stækka á Íslandi og uppgræðsla eykst. Þetta eru auðvitað sumpart afleiðingar loftslagsbreytinga og breytts veðurfars sem nú gengur yfir og getur þýtt frekari þurrka, fleiri eldingaveður o.s.frv. Þá vitum við um leið að náttúruvá breytist. Það sem ég er að vísa til er einfaldlega það að gróðureldum getur fjölgað. Við munum öll svokallaða Mýraelda þar sem 75 km² af mó- og mýrlendi brann. Það var töluvert mikið tjón. Náttúran er lengi að jafna sig eftir slíkt. Nýlega voru gróðureldar í Norðurárdal sem voru á allt öðrum skala og miklu minni, sem betur fer. Ég tel að þessi aukna eldhætta kalli á bættar varnir. Mjög víða eru öflug slökkvilið, við vitum það, en það er oft mjög langt að fara og erfiðar aðstæður.

Það er mikið um mannvirki í kjarrlendi og skógum á Íslandi og er ég þá aðallega að vísa til sumarbústaða. Ég tel því að við blasi ákveðið verkefni sem er endurskoðun almannavarnafyrirkomulags þegar kemur að gróðureldum, og ekki aðeins það heldur líka viðbragðsáætlanir sem eru þá nýjar af nálinni. Það þarf sérstaklega að hyggja að slökkvistarfi úr lofti. Við höfum ekki reynt það mikið hér, en það er mjög mikilvægur þáttur í þessu og eins brottflutningur fólks. Þar gegna þyrlur sérstöku hlutverki. Þá eiga við svokallaðar risaskjólur og er aðeins ein slík til í landinu. Þetta getur skipt sköpum þannig að við þurfum að búa til reglur og fyrirkomulag, ég tel það einboðið, og skilgreina hlutverk Landhelgisgæslunnar og annarra þyrlufyrirtækja, sem eru prívat eins og við vitum. Það er töluvert verkefni sem blasir við og ætla ég að hvetja til þess að á því verði tekið.