150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hvenær verða kosningar? Það vitum við ekki og það eigum við ekki að fá að vita fyrr en einhvern tímann í haust og þá kannski ekki einu sinni með fullri vissu. Hins vegar hafa formenn ríkisstjórnarflokkanna tjáð sig nokkuð frjálslega um tímasetningu kosninga. Við vitum þó að hefð er fyrir kosningum að vori í íslensku stjórnmálalífi og ærnar ástæður fyrir því. Kosningar að vori gefa ráðherrum tíma til að setja sig inn í ráðuneyti sín, kosningar að vori gefa ráðherrum líka rúman tíma til þess að semja fjárlög fyrir haustið. Haustkosningar fela aftur á móti í sér mjög skamman tíma fyrir þá vinnu. Komist ný ríkisstjórn til valda situr hún að vissu marki uppi með stefnumótun hinnar fyrri í heilt ár í viðbót í ljósi tímaskorts við vinnu á fjárlagafrumvarpi.

Hvers vegna skiptir vitneskja um tímasetningu kosninga máli? Eigum við ekki bara að halda áfram og pæla ekkert í því fyrr en sex vikum fyrir kosningar, eins og hefur raunar komið fyrir? Jú, ríkisstjórnir springa stundum með litlum fyrirvara og þá er lítið að gera í því að skammur tími gefist til kosninga og að skammur fyrirvari sé á tímasetningu kosninga. En ríkisstjórn sem hefur í huga að sitja út kjörtímabilið ætti auðvitað að sjá sóma sinn í því að láta þing og þjóð vita hvenær hún hyggist boða til kosninga. Þetta skiptir máli vegna þess að til stendur að breyta kosningalögum og við vitum að mikilvægt er að það sé gert eins fljótt og unnt er þannig að sem mestur tími liggi á milli mikilvægra breytinga á kosningalögum og svo kosninganna sjálfra. Þetta er lýðræðismál, þetta er mjög mikilvægt lýðræðismál. Þetta hefur áhrif á vinnu þingsins og þetta hefur áhrif á upplýsta kjósendur sem vilja vita hvenær þeir fái að velja sér fulltrúa að nýju.

Virðulegi forseti. Tímasetning kosninganna er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar sem hefur einhvers konar hnapp til að velja hvenær hún vilji ganga til kosninga. Nú er kominn tími til að hún upplýsi okkur öll.