150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. ASÍ sendi póst á þingmenn nú í morgun þar sem bent er á að hin nýja leið ríkisstjórnarinnar til að styðja við fyrirtækin, sem felst í því að ríkissjóður greiði uppsagnarfrest fyrirtækjunum til handa, þýði að eftir að fólk hefur verið rekið og fer á uppsagnarfrest gæti fyrirtækið ráðið einstaklinginn aftur á lægri launum. Við munum kalla eftir því að málið verði aftur tekið fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd og farið yfir það atriði. Þetta ætti samt sem áður ekki að koma nefndarmönnum á óvart, þetta er nákvæmlega það sem hv. þm. Smári McCarthy bendir á í nefndaráliti sínu um málið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Starfsmönnum verður gert að vinna á uppsagnarfresti, á kostnað ríkissjóðs. Að uppsagnarfresti liðnum er atvinnurekandi hvattur til að bjóða starfsmanni sem sagt var upp endurráðningu með sömu kjarasamningsbundnu réttindum og hann hafði áður en ekki endilega sömu launum, hafi þau verið hærri en kjarasamningar segja til um.“

Vonandi er það nóg að ASÍ bendi á þetta og vonandi verður þetta lagað. En tökum þetta aðeins saman. Farið var af stað með aðgerðir þar sem fólki var leyft að lækka við sig starfshlutfall en fá samt sem áður 90% af laununum sínum. Það var leiðin sem farin var. Hvers vegna? Til að halda ráðningarsambandinu, til að halda fólki að störfum. Svo tekur ríkisstjórnin algjöra U-beygju í þessu máli og leggur til að stór hluti fyrirtækja á Íslandi, sem við vitum ekki einu sinni hversu stór er — eru það 25% eða eru það 50%? — reki starfsmenn sína og þeir verði eins konar ríkisstarfsmenn sem vinni hjá þeim í þrjá mánuði. Svo geti þau ráðið þá aftur en mögulega á lægri launum.

Þessi aðgerð er fyllilega og algerlega í þágu atvinnulífsins en ekki í þágu launafólks; algjör U-beygja frá því að reyna að halda í ráðningarsamband yfir í það að ýta fyrirtækjum út í það að reka starfsmenn og ráða aftur á lægri launum.