150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hlutastarfaleiðin hitti í mark en óvissan var mikil þegar þingið samþykkti hana. Rúmlega 37.000 manns hafa nýtt leiðina og þetta fólk er í ráðningarsambandi við tæplega 6.500 launagreiðendur. Markmiðið var að stuðla að því að fyrirtæki héldu ráðningarsambandi við starfsmenn eins og frekast væri unnt þótt minnka þyrfti starfshlutfall vegna tímabundins rekstrarvanda og lokana samfélagsins. Hlutastarfaleiðin felur í sér aukinn rétt launamanna til atvinnuleysisbóta en ekki rétt fyrirtækja til stuðningsgreiðslna frá ríkissjóði. Úrræðið lækkar samt samhliða launakostnað vinnuveitenda og bætir þannig rekstrarskilyrði fyrirtækja sem orðið hafa fyrir samdrætti. Ég álít samspil hlutastarfaleiðarinnar og launa í sóttkví auk þess hafa styrkt allar sóttvarnaaðgerðir og stutt marga við að hlýða Víði.

Nú er verið að skýra rammann um þessa stoð og er það vel en við verðum samt að gæta okkar að sá rammi verði ekki of þröngur. Leiðinni er áfram ætlað að verja afkomu fólks, styðja fyrirtæki og auka líkurnar á að tekjuöflun samfélagsins í heild komist eins hratt í gang og mögulegt er. Vissulega getur svona kerfi boðið upp á misnotkun og það reynir á skýr fyrirmæli löggjafans, leiðbeiningar stjórnvalda, samtímaeftirlit og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Nú þegar dregið hefur úr kófinu og farið er að sjá til sólar gegnum renninginn mun áfram reyna á samvinnu og útsjónarsemi einstaklinga, fyrirtækja og stjórnvalda. Fyrirtæki þurfa að sýna samfélagslega ábyrgð við mat á þörf fyrir opinber úrræði en við setjum líka traust okkar á hugkvæmni smárra sem stórra atvinnurekenda í öllum geirum við að skapa ný störf og nýjar tekjur. Eitt af því gæti verið að endurhugsa starfsmannaleit og markhópinn þar sem fyrirtæki leita starfsmanna.