150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um annað mál en sameiginlegur fundur eftirlitsnefndar og fjárlaganefndar í morgun með ríkisendurskoðanda um skýrslu ríkisendurskoðanda á hlutabótaleiðinni fékk mig til að skipta um skoðun. Ég á í smávandræðum því að ég studdi markmið hlutabótaleiðarinnar sem í lögum eru tiltölulega vítt skilgreind. En það er þó eitt atriði þar sem er tiltölulega þröngt skilgreint og er ekki verið að fara eftir. Það er mat á áhrifum leiðarinnar og kostnaði. Vissulega var skilyrðum breytt í meðförum þingsins. Það var gefið leyfi fyrir minna starfshlutfalli, hærri heildargreiðslur, 90% af launum og ýmislegt þess háttar, sem hækkar kostnað áhrifamatsins eilítið. Matið var ekki endurskoðað, en miðað við þær breytingar sem voru gerðar ætti það ekki að hafa margfaldast mikið.

Upprunalegt mat á áhrifum var tæpar 800 milljónir. Nú erum við komin í tölu sem telur marga, marga milljarða, meira en 20. Við erum komin með fjáraukalagafrumvarp upp á 37 milljarða fyrir þetta úrræði. Það hlýtur að vera að þegar stjórnvöld taka við lögum frá þinginu þurfi þau að skoða allar þær takmarkanir sem lögin hafa, þar á meðal út af stjórnarskrárákvæði um að það megi einungis greiða út fé sem fjárheimild er fyrir, taka tillit til þeirra fjárheimilda sem fylgja frumvarpinu, mat á þeim áhrifum og þeirra samþykkta sem liggja fyrir hér á þingi fyrir þeim áhrifum. Þegar upphæðin er komin margfalt hærri tölu (Forseti hringir.) en gerð er grein fyrir í frumvarpinu þá hljóta stjórnvöld að þurfa að koma aftur til þingsins og spyrja: Var það örugglega þetta sem þið meintuð?