150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Já, svo sannarlega höfum við skrúfað frá ríkiskassanum, kraninn stendur algjörlega opinn og bunar úr honum í allar áttir. Svo einkennilegt sem það virðist vera, þrátt fyrir allan okkar góða vilja, hefur okkur ekki tekist að girða fyrir það að hér séu aðilar sem misnota þá velvild og þá björgun sem við erum að senda út í samfélagið.

Mig langar til að nefna eitt lítið dæmi. Hér er talað um að á þessu ári muni ríkissjóður í björgunarpakka sínum senda hvorki meira né minna en 300.000 millj. kr. út í samfélagið, hátt í 300 milljarða kr. Ég kýs að tala í milljónum, hátt í 300.000 milljónir, vegna þess að af góðsemi eru settar 25 millj. kr. til fátæks fólks, til hjálparstofnana sem eiga að gefa fátækum Íslendingum að borða, sem standa í röðum í vanda sínum og biðja um mat; 25 millj. kr. og ekki er enn búið að skila einni krónu. Nú hefur Fjölskylduhjálp Íslands lokað fyrir úthlutanir hjá sér, hafði reynt að úthluta matargjöfum hvern einasta virkan dag. Mig langar líka að nefna að við settum 30 milljónir í einskiptisaðgerð til SÁÁ. Þar eru yfir 700 einstaklingar á biðlista en álfasalan þeirra og allt þeirra sjálfsaflafé er núna fyrir bí. Álfasalan hefur algerlega mistekist sem hefur gefið þeim um 50 millj. kr. á ári. Í þetta settum við 30 milljónir af þeim 300.000 milljónum sem við erum að setja út í samfélagið í björgunaraðgerðir.

Hvað segir þetta okkur, virðulegi forseti? Það eru ákveðnir þjóðfélagshópar í samfélaginu sem eru sem sagt ekki þess virði að taka utan um og bjarga almennilega og ekki er heldur komin inn ein einasta króna af þessu fé.