150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ræða um falskar fréttir og upplýsingaóreiðu en er samt tilneydd til að bregðast aðeins við orðum hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar sem hann lét falla áðan úr ræðustóli. Ég velti því fyrir mér hvað það er sem þingmaðurinn skilur ekki eftir sérstaka umræðu hér í síðustu viku og hvet hann til að æfa sig í að lesa og hlusta betur vegna þess að þá fær hann ýmsar skýringar, alla vega á þeim orðum sem ég lét falla og hef einnig birt þau á fésbókinni. Framganga þingmannsins var honum alls ekki til sóma áðan, að óska ekki eftir að eiga orðastað við fólk heldur fara með staðlausa stafi.

Það eru fleiri sem fara fram úr sér og ættu að æfa sig í að lesa og hlusta, m.a. Bandaríkjaforseti. Það kom fram í fréttum áðan að Twitter hafi merkt færslu hans sem misvísandi og hann hóti því nú að setja samfélagsmiðlum reglur. Eins og við vitum eru falsfréttir orðnar verulega stórt vandamál um allan heim og ógna lýðræðinu og því kerfi sem við búum við. Það eru fleiri fréttir af slíku nánast daglega á íslenskum miðlum, m.a. í dag, 29. maí, á RÚV. Þar kemur fram að margs konar tíðindi tengd kórónufaraldrinum sem eiga sér litla stoð eða enga í veruleikanum valdi nú víða uppnámi og skelfingu í Asíu og svo er það rakið í fréttinni.

Þjóðaröryggisráð hefur ákveðið að stofna vinnuhóp til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til að sporna gegn henni. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að forsætisráðherra og menntamálaráðherra setji af stað starfshóp sem eigi að auka miðlalæsi hjá öllum aldurshópum, kortleggja upplýsingaóreiðu, skilgreina stofnanir og samþættingu þeirra sem hafa með þetta að gera og fara í nauðsynlegar lagabreytingar.