150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í vikunni flaug ég norður til Akureyrar ásamt utanríkisráðherra og fleiri þingmönnum og öðru góðu fólki þar sem utanríkisráðherra skrifaði undir samstarfssamning við Háskólann á Akureyri um að styrkja þekkingargrunn íslensks háskólasamfélags um málefni norðurslóða. Þetta var einkar ánægjuleg stund og við sem sitjum í þingmannanefnd um endurskoðun á stefnu Íslands í málefnum norðurslóða fengum þarna tækifæri til að hitta bæði háskólasamfélagið og atvinnulífið og fengum fóður inn í þá vinnu sem fram undan er hjá okkur. Með okkur í för var reyndar líka starfshópur um efnahagsþróun á norðurslóðum og eru þau komin langt í sinni vinnu.

Mig langaði að vekja sérstaka athygli á því hér, virðulegur forseti, hvað norðurslóðamálin eru okkur gríðarlega mikilvæg. Við vitum af þeim miklu ógnum sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga sem hafa tvöfalt meiri áhrif á norðurslóðum. En það er oft þannig að í ógnum leynast líka tækifæri. Við þurfum sem samfélag að vakta betur þær breytingar sem eru að verða og við þurfum að aðlagast þeim breytingum sem augljóslega eru að verða og munu verða á næstu árum. En við þurfum líka að finna í því ákveðin tækifæri. Ég er svo sannfærð um að með þeirri þekkingu og þeim rannsóknum sem eiga sér stað í íslensku háskólasamfélagi og rannsóknasamfélagi þá höfum við mikil tækifæri til að vera leiðandi í málefnum norðurslóða, í málefnum hafsins og umhverfismálum á þessum vettvangi.

Ég held því að það sé bjart fram undan og við eigum að nota vel þetta ár þar sem við gegnum formennsku í Norðurskautsráðinu til að ýta enn frekar undir rannsóknir og nýsköpun á þessum vettvangi og verða svo miðstöð þekkingar og nýsköpunar á sviði norðurslóðamála og umhverfismála.