150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði í ræðu undir liðnum Störf þingsins þann 30. apríl sl., með leyfi forseta:

„Það er staðreynd að í þeim lánum og stuðningi sem við erum að veita til fyrirtækja í formi brúarlána og stuðningslána er gerð skýlaus krafa um það af hálfu ríkisins að annars vegar njóti fyrirtæki sem séu í skattaskjólum ekki þess stuðnings og hins vegar að fyrirtækin geti ekki greitt sér út arð á meðan ríkisábyrgðar nýtur við á þeim lánum. Þetta er skýr vilji ríkisstjórnarinnar sem er að finna í þeim málum sem hafa komið fyrir þing.“

Þau skilyrði sem hingað til hafa verið sett fyrir stuðningi ríkisins koma ekki í veg fyrir að þeir sem fá stuðning hafi ekki nýtt sér skattaskjól. Í fyrsta lagi eru allir rekstraraðilar á Íslandi með fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Þetta atriði útilokar ekki félög í skattaskjóli. Í öðru lagi er kveðið á um að umsækjandi um stuðning hafi skilað ársreikningi og upplýsingum um raunverulega eigendur og sú skylda er þegar í lögum. Í þriðja lagi skal rekstraraðili, ef við á, hafa skilað sérskýrslu og sú skylda er líka þegar í lögum. Þetta sýnir að engin ný skilyrði eru sett fyrir stuðningi samkvæmt lögunum sem samþykkt hafa verið og ekki heldur í þeim sem við greiðum atkvæði um í dag nema hv. þingmenn samþykki tillögu Samfylkingarinnar. Til að vera alveg viss um þessi skilyrði bað ég um skrifleg svör frá skattinum um þetta, með dæmum um aðila sem býr á Íslandi og líka um aðila sem býr ekki hér en er með rekstur á Íslandi. Svör skattsins voru skýr. Skilyrðin útiloka ekki félög með virk tengsl við skattaskjól með nokkrum hætti.

Nú þegar viðurkennt er að skilyrðin sem sett eru haldi ekki, hvernig vill hv. þingmaður þá tryggja að fyrirtæki með rætur í skattaskjólum fái ekki stuðning ríkisins?