150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Í upphafi vildi ég segja, í tilefni af orðaskiptum sem áttu sér stað hér í upphafi umræðu um störf þingsins, að það var réttmætt hjá forseta að gagnrýna hv. þm. Ásmund Friðriksson fyrir að beina orðum sínum til nafngreindra þingmanna og gagnrýna þingmenn sem höfðu ekki verið varaðir við. Ég lenti sjálfur í því fyrir ekki mörgum dögum að beina máli mínu eða gagnrýni að hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni án þess að gera honum viðvart þannig að hann hafði ekki tækifæri til að bregðast við. Það er ágæt almenn regla fyrir okkur öll að hafa í huga að þegar við tökum upp umræður undir þessum lið og ætlum að gagnrýna einstaka þingmenn eða ráðherra að þá verði gert viðvart þannig að sá sem gagnrýnin beinist að hafi tækifæri til að bregðast við eða svara. Nóg um það.

Við erum nú komin á síðari hluta kjörtímabils og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir vék að því í máli sínu fyrr í dag. Mátti skilja orð hennar sem einhvers konar gagnrýni á ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluta fyrir að hafa ekki gefið út yfirlýsingar um það hvenær gengið verði til kosninga á næsta ári. Nú er staðan auðvitað sú að kjörtímabilið er fjögur ár frá kjördegi. Síðast var kosið í lok október 2017 þannig að kjörtímabilið er til loka október 2021 nema ákvörðun verði tekin um annað. Slík ákvörðun hefur ekki verið tekin og ég verð að segja mína persónulegu skoðun, ég tala þar ekki fyrir hönd annarra en sjálfs mín, að mér finnst sjálfsagt að núverandi stjórnarmeirihluti starfi saman til loka kjörtímabils vegna þess að þetta samstarf hefur gengið vel og það hefur skilað góðum árangri.