150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í dag ráðast örlög tveggja mála í þessum aðgerðapakka öllum. Það eru viðbótarskilyrði fyrir hlutabætur og þetta frumvarp um laun í uppsagnarfresti. Óhjákvæmilega hafa þessi frumvörp áhrif hvort á annað. Við í Samfylkingunni hefðum talið að gera ætti allt sem hægt væri til að beina fyrirtækjum frekar í að nota hlutabætur og halda ráðningarsambandi við fólk en skilyrðin í þessum lögum eru veikari en í hlutabótaleiðinni og munu hvetja fyrirtæki til að fara í þveröfuga átt og reka fólk og segja því upp. Við munum ekki geta stutt frumvarpið nema breytingartillögur, sem við höfum gert grein fyrir, verði samþykktar og að breytingar milli 2. og 3. umr., eftir fund með ASÍ, leiði til bóta á málinu.