150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Viðreisn er á því meirihlutaáliti eða á því máli sem hér um ræðir, enda teljum við að þær breytingar sem hafa verið unnar í nefndinni hafi verið til bóta. Það breytir því ekki að ýmislegt er gagnrýnivert og hægt er að laga og þá ekki síst samspil þessara tveggja mála sem gjarnan hafa verið rædd saman síðustu viku, annars vegar hlutabótaleiðina svokölluðu og hins vegar þetta mál sem lýtur að greiðslu launa í uppsagnarfresti. Í ljósi þeirra athugasemda sem hafa annars vegar komið fram núna við það hvernig þessi tvö mál spila saman og ólík skilyrði sem sett eru þeim launþegum og fyrirtækjum sem hyggjast nýta sér þessi úrræði og hins vegar í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem minni hlutinn hefur við seinna málið, þ.e. hlutabótaleiðina, þá munum við sitja hjá við þessa afgreiðslu þar sem búið er að vísa málinu til nefndar og taka síðan stöðuna aftur.