150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í upphafi Covid-viðbragða var það yfirlýst markmið stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar að viðhalda ráðningarsambandi almennings við fyrirtæki í landinu. Nú, tveimur mánuðum seinna eða nærri þremur mánuðum seinna, erum við að horfa fram á skýran hvata sem stjórnvöld leggja til fyrirtækja í formi þessarar uppsagnarleiðar vegna þess að þau tvö mál sem við erum að fjalla um hér í dag, annars vegar uppsagnarleiðin og stuðningur við fyrirtæki sem segja upp starfsfólki og hins vegar hlutabótaleiðin og stuðningur við fyrirtæki sem þurfa að minnka starfshlutfall sinna starfsmanna, eru þess eðlis að skilyrðin í þessum tveimur málum eru mjög ólík. Þau hvetja fyrirtæki til uppsagna. Við höfum nú þegar fengið fregnir af því bara í dag og í gær að fyrirtæki séu að taka starfsfólk sitt af hlutabótaleiðinni vegna þess að skilyrðin eru með þeim hætti, (Forseti hringir.) þó eru skilyrðin í þessu máli mun mildari. Þetta finnast mér vera mjög sérstök skilaboð frá ríkisstjórninni (Forseti hringir.) sem hvetur fyrirtæki til að segja frekar upp starfsfólki sínu en að viðhalda ráðningarsambandi.