150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Til þessa hefur okkur helst greint á um hversu stór skref eru tekin í viðbrögðum við Covid í þeim þingmálum sem hér hafa verið til umfjöllunar, en við höfum almennt verið sammála um að skrefin hafi verið í rétta átt. Svo er ekki í þessu máli. Hér er verið að byggja gríðarstóran hvata, 27 milljarða af almannafé, til að fyrirtæki segi starfsfólki upp. Það er gert án þess, virðist vera, að samspilið við hlutabótaleiðina sé skoðað sem ráðherra kallaði þó eftir í 1. umr. Það er gert án þess að setja þá varnagla sem eru nauðsynlegir til að tryggja hagsmuni launafólksins sem þetta úrræði á þó að þjóna.

Ég fagna því auðvitað að efnahags- og viðskiptanefnd muni fjalla um athugasemdir ASÍ á fundi síðar í dag og sjá hvort hægt sé að verða við þeim en verð að viðurkenna, herra forseti, að ég er vonlítill af því að þær athugasemdir komu áður fram. Við bentum á það í umræðu í gær að ekki hefði verið brugðist við þeim. (Forseti hringir.) Þetta var vitað og þetta var gert meðvitað.