150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:49]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það sem við erum að gera hér í dag, ég vona a.m.k. að við berum gæfu til þess, er að taka ákvörðun um að grípa til aðgerða til að reyna að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja sem hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli, eða a.m.k. 75% tekjufalli. Það eru engin smáskilyrði sem sett eru fyrir slíkum stuðningi, 75% a.m.k. Við erum um leið að vonast til þess að fyrirtækjunum takist hugsanlega að lifa af þessa hörmungartíma. Ef þeim tekst það þá hafa þau skyldur og við erum að tryggja rétt starfsmanna á endurráðningu, ef úr rætist, í sambærilegt starf. Það er verkefnið sem blasir við hér og ég trúi ekki öðru en að við berum gæfu til þess að standa (Forseti hringir.) saman um að reyna að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja sem glíma við ótrúlegan vanda, vanda sem við höfum aldrei séð áður.