150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hér upp öðru sinni vegna þess að við erum hér 63 og það er bara hluti hópsins, annars vegar þeir sem eru í hv. velferðarnefnd og hins vegar þeir sem eru í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem hefur getað kafað djúpt ofan í málið. Hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, talaði um að við værum með þessu máli að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Ríkisstjórnin er að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot með fjöldauppsögnum, það er bara þannig. Í staðinn fyrir að vernda störf er verið að efla til fjöldauppsagna. Við skulum skoða muninn á þessu vegna þess að í hlutabótaleiðinni mega fyrirtækin, sem eru í mjög miklum vanda, og við erum öll sammála um það, eingöngu nýta lítinn hluta af starfskröftum starfsmanna sinna en að öllu leyti í þá þrjá mánuði sem uppsagnarfresturinn varir, eða eftir því hve langur hann er. Það hljóta allir að skilja þennan hvata. Nú þegar efnahagslífið er að fara aftur af stað og fyrirtækin geta aftur farið að fúnkera hlýtur það að vera skýr hvati (Forseti hringir.) að segja starfsfólki frekar upp og geta fullnýtt það á tímabilinu frekar en að setja það á hlutabætur. (Gripið fram í: Tekjusamdráttur.) Þetta er í boði ríkisstjórnarinnar.