150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Til að hafa það algjörlega á hreinu þá höfum við Píratar frá því að Covid byrjaði talað um að það væri mjög eðlilegt að fyrirtækin gætu lagst í dvala og að við kæmum til móts við fólk sem væri að missa vinnuna á einhvern hátt, t.d. með nýsköpun. Síðan þegar kófinu lyki gætu fyrirtæki tekið upp þráðinn að nýju þar sem frá var horfið, ef grundvöllur væri fyrir því, en áfram myndu nýsköpunartækifærin grípa þá sem annars dyttu á milli. Það er algerlega á hreinu að það hefur enginn hvatt til fjöldagjaldþrota fyrirtækja. Ég hafna þeim ásökunum mjög og vísa einfaldlega í þær umræður sem hafa orðið um þetta mál frá því að það byrjaði. Við áttum að leyfa fyrirtækjunum að leggjast í dvala og efla nýsköpun margfalt. Nýsköpun er kannski rétt í meðallagi núna miðað það sem hún ætti að vera. Þar vantar enn þá mikið.