150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Tilgangur þessa frumvarps er góður. Hver er hann? Jú, að þau fyrirtæki sem neyðast til að segja upp starfsfólki sínu og geta ekki borgað þriggja mánaða uppsagnarfrest fái aðstoð við það. Það er gott. Er hægt að gera þetta öðruvísi? Já, án þess að eina leiðin sem þau fá til þess að geta gert þetta sé að reka starfsfólk sitt. Við getum víkkað út hlutabótaleiðina þannig að þau fyrirtæki sem hafa misst 75% af tekjunum sínum, eins og er í þessu frumvarpi, geti minnkað starfshlutfall starfsfólksins niður í núll, gætu rekið það, en ríkið myndi samt sem áður borga fyrir starfsfólkið. Þá væri slíkur hvati settur inn en starfsfólkið sjálft — nú eru margir að fara af hlutabótaleiðinni en með þessu höfum við hana enn þá. Þeir sem þurfa samt sem áður að reka starfsfólk sitt geta gert það. Tilganginum er náð án þess að það sé beinn hvati, þ.e. ef fyrirtæki ætlar að fá þessa peninga frá skattgreiðendum þá þarf það að reka starfsfólkið sitt. Þetta myndi líka þýða að það starfsfólk sem sér fram á að vera rekið (Forseti hringir.) hefur svigrúm í þrjá mánuði til að finna sér önnur störf, til að endurskipuleggja líf sitt. En því er ekki að skipta í þessu. Hér er bara hvati þó að það séu til aðrar leiðir til að ná markmiðinu um að hjálpa fyrirtækjum (Forseti hringir.) sem þurfa að reka starfsfólk en geta ekki greitt uppsagnarfrestinn. Þetta er vont mál.