150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

leigubifreiðar.

773. mál
[12:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp sem fjallar um tímabundna heimild leigubílstjóra sem hafa haft leyfi skemur en tvö ár til að leggja inn atvinnuleyfi sitt án þess að leyfið falli úr gildi, eins og kveðið er á um í lögum um leigubifreiðar. Gert er ráð fyrir að þetta ákvæði gildi til næstu áramóta. Þetta kemur þessum hópi leigubílstjóra að mörgu leyti til góða, sparar útgjöld og auðveldar þeim að skrá sig á atvinnuleysisbætur.

Ég set fyrirvara við stuðning minn við frumvarpið og ástæður þess eru nokkrar. Fyrst og fremst tel ég, eins og ég hef reyndar tjáð mig um áður, að auðvelda hefði átt leigubílstjórum strax að fara á hlutabótaleiðina sem hefur reynst þeim mjög örðugt og tafsamt að nýta. Þá væri þetta frumvarp næsta óþarft því að leigubílstjórar hafa skyldum að gegna við samfélagið við að halda úti þjónustu við borgarana þótt vinna þeirra hafi vissulega dregist óheyrilega mikið saman. Ég er einnig ósáttur við óviss og sein viðbrögð stjórnvalda hvað varðar þennan hóp og ekki síst framkvæmdina á úrræðum fyrir hann og reyndar er sömu sögu að segja um fleiri hópa einyrkja. Ég verð t.d. að minnast á þau viðbrögð Vinnumálastofnunar að gera það að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til leigubílstjóra að þeir séu í atvinnuleit. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Krafa um atvinnuleit í því ástandi sem er í samfélaginu og í því ástandi sem er á vinnumarkaði leigubílstjóra, (Forseti hringir.) segir allt um ósveigjanleika kerfisins. Tölvan segir einfaldlega nei.