150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

leigubifreiðar.

773. mál
[12:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hingað upp eingöngu vegna orða hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar varðandi leigubílstjórana því að við höfum einmitt orðið vör við það í hv. velferðarnefnd að þeir hafa orðið út undan og eru í einstaklega viðkvæmri stöðu þegar kemur að stuðningi stjórnvalda í þessari mjög svo erfiðu stöðu. Ég get tilkynnt það, svo það sé sagt hér líka, að minni hluti velferðarnefndar, þar sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, samflokkssystir hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, er með á nefndarálitinu, gerir ráð fyrir því að leigubílstjórar þurfi ekki að vera í virkri atvinnuleit þegar þeir nýta stuðning hins opinbera á þessum tímum. Við erum einmitt að leggja til þær breytingar þannig að ég hvet alla sem munu greiða atkvæði í dag til að styðja þá tillögu til að tryggja réttindi leigubílstjóra líka.