150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:21]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill, áður en að atkvæðagreiðslu kemur, minna á að hvatt er til þess að þingmenn hafi tímamörk í huga þegar þeir sitja eða standa mjög þétt saman. Þar af leiðandi er æskilegt að atkvæðagreiðslur eða samfelldar atkvæðagreiðslur taki ekki mjög langan tíma. Forseti mun gera hlé á þessari atkvæðagreiðslu ef hún dregst mjög mikið umfram það sem þegar er orðið, einfaldlega til þess að þingmenn geti þá dregið sig svolítið í sundur. Þetta nefnir forseti í tengslum við það þegar hv. þingmenn biðja í stórum stíl um orðið um atkvæðagreiðsluna, sem að sjálfsögðu er heimilt samkvæmt þingsköpum en getur leitt til þess, eins og það ákvæði er útfært í þingsköpum, að upp hefjist efnisumræða og skoðanaskipti jafnvel inni í eða áður en atkvæðagreiðsla hefst og það jafnvel þó að 3. umr. sé eftir um viðkomandi dagskrármál. Forseti er reyndar þeirrar skoðunar að þetta ákvæði þingskapa hafi ekki verið hugsað þannig á sinni tíð og ekki var það þannig framkvæmt mjög lengi vel heldur til að gera eiginlegar athugasemdir um sjálfa atkvæðagreiðsluna, eitthvað sem sneri tæknilega að atkvæðagreiðslunni. En þróunin hefur orðið sú á síðari árum að þetta ákvæði er æ meir nýtt til að hefja einhvers konar viðbótarefnisumræðu áður en að atkvæðagreiðslu kemur og getur það tekið sinn tíma.

Að sjálfsögðu eru skoðanaskipti jafnan þörf en þetta er eitthvað sem er rétt að hafa í huga og við núverandi aðstæður verður forseti að segja í fullri einlægni að honum þætti gott að menn færu sparlega með þetta ákvæði því að það vill stundum lengja atkvæðagreiðslur mjög. Um tíma var þessu ákvæði aðallega beitt þannig að talsmenn þingflokka, einn frá hverjum þingflokki, gerðu athugasemdir fyrir hönd síns þingflokks. Það færi vel á því að menn sammæltust um að hafa þetta einhvern veginn þannig nú á tíma þegar það er enn þá viðkvæmt hversu lengi við stöndum eða sitjum þétt saman. — Nú er sjálfsagt að veita mönnum orðið um fundarstjórn forseta. Menn mega vera eins ósáttir við ummæli forseta og þeir vilja. Þeir hafa sinn rétt.