150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er flott að forseti hugsi til þess að fólk sitji ekki lengi þétt saman. Það er bara sjálfsagt mál. Það þarf þá að vera ljóst að forseti sé ekki að beita því í öðrum tilgangi en að hugsa um heilsu og hag þingheims. Hver eru þá þessi tímamörk? Þau þurfa þá að liggja fyrir og það þurfa að vera einhvers konar málefnalegar forsendur fyrir því. Eins og við heyrðum í ræðu forseta er þetta hans hugðarefni; hann er ekki hrifinn af að umræða sé um atkvæðagreiðslu um málið. En það er bara mjög gott mál, það eru einmitt bestu umræðurnar sem eiga sér stað þá, upplýstustu umræðurnar, og langflestir eru til staðar.

Það að forseti taki tíma hér til að viðra þetta hugðarefni sitt í tengslum við Covid-nálgun — mér finnst ekki sómi að því, skulum við segja. Það er sjálfsagt að gera bara hlé á fundinum en forseti þarf þá að upplýsa okkur um það hvernig sú tímasetning lítur út þannig að þeirri heimild forseta sé ekki beitt í einhverju gerræði.