150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek til máls til að taka undir með hæstv. forseta sem hvorki var að takmarka málfrelsi eins eða neins né beita nokkurn ofríki í þessu sambandi, heldur einfaldlega benda á ákveðnar staðreyndir og koma með afar vinsamleg tilmæli til þingmanna um að fara sparlega með möguleikann til þess að taka til máls um atkvæðagreiðslu eins og sagt er. Staðreyndin er auðvitað sú að tækifæri þingmanna til að taka efnislega þátt í umræðum um einstök þingmál eru ótalmörg. Það er 1. umr., 2. umr., 3. umr. og þar að auki geta þingmenn gert grein fyrir atkvæði sínu. Jafnvel þó að þingsköpum yrði breytt á þann veg að liðnum um atkvæðagreiðslu væri einfaldlega sleppt, bara strikaður út, hefðu þingmenn ótal lýðræðislega möguleika á því að taka þátt í umræðum um einstök mál.