150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Afstaða forseta gagnvart dagskrárliðnum um atkvæðagreiðslu hefur verið til umræðu í þingskapanefnd og á vettvangi þingflokksformanna og þetta er viðfangsefni sem stjórnmálin eru að takast á við. Þegar kemur að sóttvarnaráðstöfunum er það hins vegar á ábyrgð forseta að búa þannig um hnútana að vilji hann að við tökum okkur pásu eða sitjum ekki of lengi saman þá sé bara hægt að gera hlé á atkvæðagreiðslu. Það er meira að segja atkvæðagreiðslunni til bóta vegna þess að oft er auðvelt að missa sjónar á því nákvæmlega hvað er að ske þegar langar atkvæðagreiðslur eiga sér stað, burt séð frá dagskrárliðnum um atkvæðagreiðslu eða ekki. Það má hafa hvaða skoðun sem er á þeim dagskrárlið, en mér fyndist réttara ef forseti Alþingis hefði lagt það fyrir þingmenn að við myndum taka pásur inn á milli, að það hefði legið fyrir í upphafi, en ekki vera að taka það fram hér í kjölfar þess að þingmenn nýta sér þann rétt sem þó er til staðar núna. Þetta er ekki rétti tíminn til að ákveða að reyna að hagræða dagskrárlið sem forseta Alþingis er illa við.