150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er almennt farinn að hafa áhyggjur af orðræðunni sem virðulegur forseti hefur hér uppi, og hefur haft uppi þetta kjörtímabil almennt. Ávallt eru þingmenn einhvern veginn að segja of mikið hér um þetta eða of mikið þar um hitt. Ég átta mig alveg á því að virðulegur forseti og meiri hlutinn, þ.e. ríkisstjórnin og þingflokkar hennar, vilja halda umræðum sem skemmstum til að koma málunum í gegn. Ég skil það mætavel. Ég skil alveg það sjónarmið. En virðulegur forseti, sem er forseti alls þingsins, þarf líka að átta sig á því að þetta er staðurinn þar sem þingmenn minni hlutans geta tjáð skoðanir sínar á hinum og þessum málum og verða að geta gert það án þess að virðulegur forseti sé sífellt að gefa áheyrendum þá tilfinningu að hér séu þingmenn alltaf að tala allt of mikið. Það er ekki þannig, virðulegi forseti. Ef semja á um skertan ræðutíma skal það gert á forsendum samninga. Best væri að komast hjá því ef mögulegt væri. En ég kann bara ekki við þessa orðræðu, sem virðulegur forseti hefur greinilega verið að reyna að gera að venju á þessu kjörtímabili.